fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Fanney fótbrotnaði og beið kvalin í viku:  Fór til Spánar og komst í aðgerð nokkrum tímum síðar

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 16. febrúar 2024 09:25

Fanney sátt eftir aðgerðina á Spáni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hlýtur að vera eitthvað mikið að í íslensku heilbrigðiskerfi,“ segir Oddur Magnús Oddsson í samtali við DV um mál eiginkonu sinnar, Fanneyjar Gísladóttur. Fanney og Oddur hafa verið búsett á Spáni undanfarin ár þar sem þau una hag sínum vel. Þegar Fanney heimsótti Ísland fyrr í þessum mánuði varð hún fyrir því óláni að renna til í hálku og fótbrotna illa.

Eins og gefur að skilja fór hún beint á Landspítalann í von um að fá meina sinna bót en þá tók við atburðarás sem hún átti ekki endilega von á.

„Ég kem til Íslands 6. febrúar um kvöldið og ég brotnaði í hádeginu daginn eftir,“ segir Fanney. Hún fór á Landspítalann og var sett í bráðabirgðagips áður en hún var send heim. Var henni sagt að taka því rólega þar til hringt yrði í hana og hún boðuð í aðgerð.

Beið og beið

„Á fimmta degi var ég orðin frekar súr og ég hringi á Landspítalann og fæ samband við bæklunardeild,“ segir hún en þetta var síðastliðinn mánudag.

Kveðst Fanney hafa fengið þau svör að nafnið hennar væri vissulega í kerfinu en hún væri ekki komin með neinn aðgerðardag í vikunni. Tóku þau hjónin því þá ákvörðun að hún myndi fara heim til Alicante og freista gæfu sinnar þar.

„Ég fékk flug til Spánar á miðvikudag með millilendingu og ég fékk mjög góða þjónustu á öllum flugvöllum. Morguninn eftir komum við á spítalann og ég er „preppuð“ í aðgerð milli klukkan 12 og 13,“ segir hún en aðgerðin var svo framkvæmd stuttu síðar þar sem tryggt var að brotið myndi gróa rétt saman.

Oddur lýsti reynslu þeirra hjóna á Facebook og varpaði Samstöðin til að mynda ljósi á frásögnina í gær.

Fólk orðið meðvirkt

Hefur frásögn þeirra vakið talsverða athygli og lýstu margir samskonar reynslu af íslensku heilbrigðiskerfi. Fleiri dæmi væru um einstaklinga sem hefðu brotnað og þyrftu að bíða dögum saman eftir aðgerð.

„Fólk er orðið svo meðvirkt og þarf stundum að bíða dögum saman til að komast í aðgerð út af beinbroti. Svo eru þessi brot jafnvel byrjuð að gróa saman og þá þarf að brjóta upp,“ segir Oddur við blaðamann.

Þá voru einhverjir sem lýstu því að þar sem þau væru búsett á Spáni og greiddu alla sína skatta þar ættu þau ekki rétt á neinni sérmeðferð á ísland.

Oddur bendir á að þau séu með evrópska sjúkratryggingakortið sem veitir þeim rétt til heilbrigðisþjónustu í öðru EES landi. Greiðir viðkomandi þá sama gjald fyrir heilbrigðisþjónustuna og þeir sem eru tryggðir í almannatryggingakerfi viðkomandi lands. Þau séu í því tilliti ekkert öðruvísi en aðrir Íslendingar.

Ríkisrekinn spítali á Spáni

Oddur og Fanney taka fram að umræddur spítali á Torrevieja sé ríkisrekinn, ekki einkarekinn. „Ég borga mína skatta hér og fæ bara almenna þjónustu eins og hver annar,“ segir Fanney og bætir við að þjónustan sem hún hafi fengið eftir aðgerðina sé til fyrirmyndar. „Ég er búin að fá skýrslu um hvað ég á að gera, ég kem á þriggja daga fresti í umbúðaskipti og eftir tvær vikur verða teknar myndir og nýtt gips sett á.“

Fanney hvetur þá Íslendinga sem hugsanlega lenda í óhappi erlendis, til dæmis á Spáni, að taka með sér túlk þegar leitað er á sjúkrahús. „Þó ég geti tjáð mig á spænsku að einhverju leyti þá tók ég með mér túlk. Það er gott að hafa hann með sér til að koma í veg fyrir hugsanlegan misskilning.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“