Allt tiltækt slökkvilið hefur verið kallað út vegna eldsvoða í Fellsmúla í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á Höfuðborgarsvæðinu er um töluverðan eld að ræða. Hins vegar var ekki hægt að veita nánari upplýsingar að svo stöddu þar sem slökkviliðsmenn eru nýkomnir á staðinn.
Samkvæmt fréttum RÚV er um að ræða eld á dekkjaverkstæði.
Ekki er vitað til að neinn hafi sakað.
Sjónvarvottur segir fjóra slökkvibíla og þrjá sjúkrabíla á staðnum.
Íbúar í nágrenninu eru beðnir um að loka gluggum þannig að reykur komist ekki inn. Fólki er einnig bent á að halda sig frá svæðinu.
Í fréttum Vísis kemur fram að Slökkviliðið berjist enn af fullum krafti við eldinn og að slökkviliðsmenn á frívakt hafi verið kallaðir út.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að Slökkviliðið berst enn við eld sem hafi kviknaði í Fellsmúla 24, en tilkynning um eldinn hafi borist um hálfsexleytið.
Mikinn reyk leggi frá vettvangi og séu íbúar í nágrenninu beðnir um að loka gluggum, en þessum skilaboðum sé ekki síst beint til þeirra sem búa í fjölbýlishúsunum í Fellsmúla.
Í fréttum mbl.is kemur fram að búið sé að einangra eldinn og ekki talinn mikil hætta á að hann breiðist út. Töluverður eldur er þó enn í þaki hússins sem skýrir það mikla bál og reyk sem sjá. Reiknað er með að slökkvistarf muni taka einhverjar klukkustundir í viðbót
Í útsendingu DV mátti heyra sprengingar í húsinu og í fréttum Vísis kemur fram að bakslag hafi orðið í baráttunni við eldinn og hann sé farinn að breiðast út.
Um er að ræða dekkjaverkstæði N1 og er eldurinn farinn að breiðast út og fyrirtæki sem eru í sama húsi eru í hættu. Samkvæmt heimildum DV var sá hluti verkstæðisins sem sneri að Grensásvegi fullur af dekkjum og þeim staflað nánast upp í rjáfur. Þar munu bæði ný og notuð dekk hafa verið í geymslu fyrir viðskiptavini. Ljóst virðist því að nægur eldsmatur hafi verið á verkstæðinu.
Sá hluti þak hússins við Fellsmúla sem var yfir dekkjaverkstæði N1 er hruninn. Í samtali við RÚV segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu að baráttan við eldinn sé mjög erfið vegna hins mikla dekkjalagers sem var á verkstæðinu en það sé þó bót í máli að hann sé hólfaskiptur. Slökkviliðið leggi allt kapp á að koma í veg fyrir að eldurinn berist í verslun Slippfélagsins sem er í sama húsi og dekkjaverkstæðið og að verja húsið sem hýsir símaver Hreyfils og liggur þétt upp að húsinu sem eldurinn logar í.
Í fréttum RÚV kemur fram að tekist hafi að koma í veg fyrir að eldurinn dreifði sér í verslanir á neðri hæðum hússins og hús Hreyfils. Engar eldtungur sjáist lengur stíga upp frá húsinu og eldurinn því líklega í rénun.
Í samtali við Vísi segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðstjóri á höfuðborgarsvæðinu að tekist hafi að ná tökum á eldinum. Það verði þó vart klárað fyrr en í nótt að slökkva hann endanlega.
Hægt var að sjá eldsvoðann, úr hæfilegri fjarlægð, í beinni útsendingu á Facebook-síðu DV. Myndir og myndbönd af vettvangi, sem ljósmyndari DV Kristinn Svanur Jónsson tók, má sjá hér fyrir neðan. Beinni útsendingu frá eldsvoðanum á Facebook-síðu DV er nú lokið.