Halldór B. Nellett, fyrrum skipsherra hjá Landhelgisgæslunni, skorar á Vegaferðina að horfast í augu við það að Landeyjarhöfn, hönnun hennar og staðsetning, hafi verið mistök og að stofnunin freisti þess að finna varanlegar lausnir á vandanum í stað sandmoksturs úr höfninni sem kostar skattgreiðendur ógrynni fjár á hverju ári.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Halldórs í Morgunblaðið. Greinin er löng og ítarleg en í henni fer Halldór yfir feril málsins og hvernig Vegagerðin skellti skollaeyrum við gagnrýni og viðvörunarorðum við undirbúning hafnarinnar. Halldór bendir á að hann hafi sjálfur skrifað grein fljótlega eftir opnun hafnarinnar sem bar heitið „Rangur staður og röng hönnun“. Þar sagði að staðarvalið hefði verið alrangt, höfnin hefði átt að vera nokkru vestar og að Halldóri væri það hulin ráðgáta „hvernig í veröldinni mönnum datt það í hug að byggja höfn yst á sandeyri þar sem landið hefði gengið fram um 400 metra á sl. 90 árum, örstutt frá ósum Markarfljóts. Á þeim stað hlyti að vera mikill sandburður,“ eins og segir í greininni.
Þá hafi hann varpað fram þeirri skoðun sinni að hafnargarðarnir væru rangt hannaðir því að ekki ætti að hafa hafnarmynnið opið mót suðri heldur sigla inn í höfnina úr vestri með því að lengja eystri garð hafnarinnar. „Ef höfninni yrði ekki breytt yrði hún einungis sumarhöfn og varla það. Með því að breyta hafnarmynninu yrði oftar fært í höfnina og meiri kyrrð væri innan hennar í sunnanbrælum. Vandamálið er tvíþætt, sjógangur utan hafnarmynnis og sandburður vegna nálægðar við Markarfljót. Einnig væri mjög líklegt við breytta hafnargarða að sanddæluskip gætu betur athafnað sig við verri aðstæður en ella,“ skrifar Halldór.
Segir hann að hönnuðir Landeyjarhafnar hafi skotið rökin strax í bólakafi.
„Þeir sögðu að þar sem Landeyjahöfn hefði verið valinn staður í Bakkafjöru væri mesta skjólið og minnsti sandburðurinn! Verkefnið væri bara hálfnað, með nýjum og grunnristum Herjólfi myndi verkið klárast. Þó munu, samkvæmt frétt Stundarinnar frá árinu 2019, sænskir sérfræðingar frá háskólanum í Lundi hafa varað við núverandi staðsetningu Landeyjahafnar strax árið 2005 eða þegar rannsóknir stóðu yfir. Einnig var því haldið fram að með lengingu eystri garðsins myndi hann virka sem sandgryfja. Þeir virðast enn ekki hafa áttað sig á því og geta viðurkennt að höfnin sjálf er algjör sandgryfja,“ skrifar skipsherrann fyrrverandi.
Þá hafi hugmynd hans um lengri eystrigarð verið talin óraunhæf útaf kostnaði og verðmiðanum 25 milljarðar skellt á framkvæmdina. Samt hafi sambærilegt verkefni í Danmörku kostað um sex milljarða en heildarbyggingakostnaður Landeyjahafnar var um 3,3 milljarðar króna. Varpar Halldór fram þeirri kenningu að lagt hafi verið upp með ódýra höfn og það hafi sannarlega tekist en afleiðingarnar eru þær að sandmoksturinn verður þungur baggi á skattgreiðendum um ókomna tíð verði ekkert að gert. Í fyrra hafi kostnaðurinn til að mynda numið 600 milljónum króna.
Í stuttu máli segir Halldór að áhyggjur hans hafi raungerst. „Það er mín skoðun að hönnun og staðsetning Landeyjahafnar sé sennilega eitt mesta verkfræðislys seinni ára hér við Ísland,“ skrifar Halldór og bendir á ábendingu Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluúttekt um framkvæmd Landeyjahafnar, sem kom út í maí 2022, þar sem fram kom að allar áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hefðu verið „mjög vanáætlaðar“. Þannig sé heildarkostnaður hafnarinnar orðinn 8,2 milljarðar króna.
Segir Halldór að tímabært sé að fá til landsins erlenda sérfræðinga með reynslu af svipuðum aðstæðum sem geti metið hvort hægt sé að lagfæra höfnina.
Hvað er til ráða? Ekki færum við heila höfn sem er á röngum stað en kannski er hægt að lagfæra hana.
„Ég skora á Vegagerðina að viðurkenna vandann, höfnin sjálf, hönnun hennar og staðsetning er stærsta vandamálið. Reyna að finna lausnir en ekki bara moka sand endalaust,“ skrifar Halldór.
Telur hann að ef niðurstaða reyndra hafnarverkfræðinga verður sú að ekki sé hægt að lagfæra höfnina svo hún virki betur þurfa stjórnvöld að svara því hvort réttlætanlegt sé að eyða skattfé í endalausan sandmokstur með stopulum ferðum eða þá hreinlega að afskrifa Landeyjahöfn algerlega.
Yrði það raunin sér Halldór fyrir sér að keypt yrði stórt og hraðskreitt skip sem sigldi á Þorlákshöfn þrisvar á dag og yrði ekki meira en tvær klukkustundir á leiðinni.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta lesið grein Halldórs í heild sinni hér.