Þessum spurningum varpar Bergþór Ólason fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag vegna þeirrar stöðu sem uppi er á Reykjanesi.
„Tugir þúsunda íbúa á Reykjanesi búa nú við þá stöðu að híbýli þeirra hafa verið án hefðbundinnar húshitunar dögum saman, í miðju kuldakasti. Til að bæta gráu ofan á svart þolir rafmagnskerfið ekki það álag sem rafmagnsofnum fylgir, sé ætlunin að hita hús með þeim en ekki bara stök herbergi.“
Bergþór veltir fyrir sér hvernig þessi staða gat komið á jarðhitalandinu Íslandi. Bendir hann á að í ágætri skýrslu um stöðu hitaveitna á Íslandi sem unnin var að beiðni orkumálaráðherra og kom út síðastliðið vor hafi verið dregin upp hryggðarmynd af stöðu þeirra. Voru tvær af hverjum þremur veitum aldar eiga við fyrirsjáanlegan vanda við að mæta eftirspurn.
„Fólk fékk nasaþefinn af þessu þegar sundlaugum var lokað í kuldatíð í fyrra. Sú ótrúlega mynd var dregin upp í skýrslunni að í raun hafi sáralítið verið aðhafst hvað frekari öflun heits vatns varðar í tvo áratugi. Það er auðvitað ótrúlegt og óboðlegt, á jarðhitalandinu Íslandi.“
Þegar kemur að framleiðslu rafmagns sé staðan ekki mikið skárri og hreinlega grátleg þegar horft er til þess hve illa hefur gengið að koma verkefnum um flutningslínur í framkvæmd.
„Nú um stundir væri til dæmis ágætt ef Suðurnesjalína 2, sem hefur verið lengi í tafaferli, gæti flutt rafmagn inn á svæðið. Sama á við um flutningslínur á milli landshluta en veikburða flutningsnet veldur gríðarlegu tjóni og sóun í orkukerfinu,“ segir hann í grein sinni. Hann segir að hvað heita vatnið varðar, rafmagnsframleiðslu og flutningskerfin höfum við flotið sofandi að feigðarósi.
„Þegar regluverk um orkuframleiðslu og tengd mál var formað, lög um umhverfismat, rammaáætlun og fleira, var örugglega ekki ætlun þeirra sem það gerðu að koma málum þannig fyrir að illmögulegt væri að komast áfram, jafnvel með verkefni sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Nálarauga umhverfismatsins væri svo þröngt að orkulandið Ísland yrði orkulaust,“ segir hann og endar grein sína á þessum orðum:
„Við verðum að vakna gagnvart þessum málum og sjálfur tel ég blasa við að sérlög um tiltekna virkjunarkosti og línulagnir séu leiðin fram á við; við núverandi ástand endalausra tafa verður ekki búið lengur.“