Bandarískir embættismenn hafa staðfest það við fréttastofu CBS að áætlanir hafi verið samþykktar um árásir yfir nokkurra daga tímabil á skotmörk í Írak og Sýrlandi. Þar á meðal á íranska aðila og írönsk mannvirki. Árásirnar væntanlegu eru sagðar viðbrögð við tíðum árásum með drónum og eldflaugum á bandaríska hermenn á svæðinu. Síðastliðinn sunnudag varð drónaárás þremur bandarískum hermönnum að bana en hermennirnir voru á herstöð í Jórdaníu, nærri landamærunum að Sýrlandi.
Lloyd Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna segir að árásir á Bandaríkjamenn verði ekki liðnar en á sama tíma vilji Bandaríkin forðast að yfirstandandi átök í Miðausturlöndum breiðist enn frekar út. Yfirstandandi hernaður Ísraels á Gaza og árásir Húta á skip á Rauðahafi hafi geri ástandið viðkvæmt og Bandaríkin vilji ekki að það versni enn frekar. Bandaríkin muni hins vegar grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að verja sig og sína.
Væntanlega verður að miklu leyti um loftárásir að ræða. Heimildarmenn CBS segja mögulegt að gera slíkar árásir þótt veður sé slæmt en heppilegra sé að gera þær í góðu veðri til að draga úr hættu á að almennir borgarar verði fyrir þeim.
Það hafa ekki verið gerðar frekari árásir á bandaríska aðila eða mannvirki á svæðinu síðan í gær þegar vígahópurinn Kataib Hezbollah, sem nýtur stuðnings íranskra stjórnvalda, tilkynnti að hann myndi ekki gera frekari árásir á Bandaríkjamenn að sinni. Tilkynningin er sögð engu breyta um áætlanir Bandaríkjanna um árásir.
Austin segir að fylgst verði fyrst og fremst með gjörðum hópsins og annarra slíkra aðila og það verði að sjá til hvað gerist í framtíðinni.
Írönsk stjórnvöld harðneita því að bera nokkra ábyrgð á árásum á Bandaríkjamenn á svæðinu og vara við því að árásir á íranskt landsvæði og mannafla muni hella olíu á þá vígaelda sem nú loga í Miðausturlöndum.
Austin segir að markmiðið sé að draga réttu aðilana til ábyrgðar fyrir árásir á bandarískt herlið á svæðinu án þess að auka enn frekar á átökin á svæðinu.
Íran styður á bak við vígahópa sem gert hafa árásir undanfarið í Miðausturlöndum meðal annars á Ísraela og Bandaríkjamenn. Þar á meðal eru Hamas, Hútar og Hezbollah en þeir hópar segja að árásir þeirra séu einna helst til stuðnings baráttu Palestínumanna og þeim árásum sem þeir hafi sætt að undanförnu