Samkvæmt tilkynningu Veðurstofu Íslands er eldgosinu sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga 20. nóvember síðastliðinn lokið.
Samkvæmt tilkynningunni var þetta staðfest í dag þegar Almannavarnir flugu drónaflug yfir svæðið og hafi engin virkni verið sjáanleg. Síðast hafi sést glóð í gígnum á vefmyndavélum að morgni 8. desember.
Eldgosið hófst að kvöldi 20. nóvember og stóð yfir í 18 daga og var annað stærsta gosið að flatarmáli á Sundhnúksgígaröðinni af þeim sjö sem hafa orðið frá desember 2023, segir enn fremur í tilkynningunni.
Að lokum segir í tilkynnigunni að eins og áður var greint frá hafi landris á svæðinu hafist að nýju og haldið áfram síðustu daga. Þetta bendi til þess að kvikusöfnun undir Svartsengissvæðinu sé hafin á ný.