Nýlega var kötturinn þjóðþekkti Díegó numinn á brott úr bæli sínu í verslun A4 í Skeifunni. Uppnám skapaðist og ekkert spurðist til kattarins fræga í rúmlega einn og hálfan sólarhring. Díegó fannst hins vegar heill á húfi og var skilað til eiganda síns og hans fjölmörgu aðdáendur önduðu léttar. Eftir að Díegó sneri aftur heim til sín leið hins vegar um vika án þess að það bólaði á honum í ríki sínu í Skeifunni og aðdáendur hans fóru aftur að verða áhyggjufullir. Fyrr í vikunni gátu þeir hins vegar tekið gleði sína á ný því Díegó er snúinn aftur.
Í aðdáendahóp Díegó á Facebook hafa birst nokkrar færslur undanfarna tvo daga þar sjá má að hann er kominn aftur á kreik í verslunum í Skeifunni. Díegó varð landsfrægur og raunar hefur frægð hans borist út fyrir landsteinana fyrir að eyða stórum hluta hvers dags í Skeifunni og hefur hann ekki síst haldið sig í verslun Hagkaupa og verslun A4 en hann hefur sitt eigið bæli í þeim báðum.
Í aðdáendahópnum hafa síðustu tvo daga birst færslur með myndum og myndböndum af Díegó þar sem sjá má hann meðal annars hvíla sig í bæli sínu, rölta um verslun A4 og þiggja klapp frá aðdáendum sínum.
Á ummælum í færslunum og í athugasemdum má glöggt sjá að gleði aðdáenda Díegó, eða Kóngsins eins og sumir þeirra kalla hannn, yfir endurkomu hans í ríki sitt er fölskvalaus:
„Nei sjáið þið hver er mættur, kóngurinn besti.“
„Þetta er alvöru áhrifavaldur. Hugsið ykkur, kettinum er stolið og samfélagið fór hreinlega á hliðina, fólk unni sér ekki hvíldar fyrr en kóngurinn var kominn heim.“
„Elsku besti, alltaf jafn fallegur.“
Ein athugasemd er skrifuð á ensku en þar segist viðkomandi vilja snúa aftur til Íslands til að heimsækja Díegó.
„Þetta ofurkrútt.“
Einn aðdáandi naut þess heiðurs að fá fylgd Díegó um verslun A4 í Skeifunni:
„Þessi fallegi ljúfi prins rölti með okkur mæðgum um A4 í kvöld og vildi alltaf aðeins meira og meira klór og klapp.“
Ekki voru allir þó jafn heppnir:
„Jájá. Montaðu þig bara. Þegar ég kom við í kvöld þá þóttist hann vera of kúl fyrir klapp, vegna þess að hann var að þvo sér og vildi ekki láta trufla sig. #einnbitur nei, bara grín. Rosalega er hann sætur.“
Einn fór þó að velta fyrir sér viðskiptalegu hliðinni:
„Hvað ætli Diego skaffi A4 mikinn bissniss?“
Þessi ummæli ná hins vegar líklega best að fanga stemmninguna meðal hinna fjölmörgu aðdáenda Díegó um þessar mundir:
„Elsku kallinn. Uppáhalds okkar allra.“