Það vakti athygli í fyrra þegar Gyrðir var tekinn af starfslaunum listamanna eftir að hafa verið samfellt á starfslaunum áratugum saman. Þetta vakti reiði margra enda er Gyrðir afkastamikill og hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir skrif sín.
„Hneyksli, einfaldlega, Gyrðir er fremstur meðal jafningja af íslenskum rithöfundum og bjargaði minni sögu sem er að verða til með sínum nýju ljóðabókum. Gyrðir er goðsagnavera sem kemur út úr þokunni,“ sagði til dæmis verðlaunaskáldið Elísabet Jökulsdóttir í fyrra.
Þá steig útgefandinn hans, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, fram í viðtali við Vísi þar sem hann var vægast sagt ómyrkur í máli og sagði Gyrði ekki ætla að sækja um listamannalaun aftur fyrir árið 2025.
„Ég held að þetta hafi verið í síðasta skiptið. Ég sé enga ástæðu til þess að sækja um fyrir hann aftur,“ sagði Aðalsteinn þá.
Gyrðir er hins vegar sem fyrr segir kominn aftur á starfslaun.