fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 5. desember 2024 15:16

Lundur 5 í Kópavogi Mynd: ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daníel Örn Unnarsson, þrítugur,  hlaut í dag fjögurra ára fangelsi með dómi héraðsdóms Reykjaness fyrir tilraun til manndráps í Kópavogi í júní í sumar. Varð hann á vegi tveggja vinahjóna á göngustíg, fólks á sextugsaldri, og eftir orðaskipti og átök milli Daníels og annars karlmannanna, stakk hann karlmanninn, lækni, og vin hans sem veitti Daníel eftirför. Í þessu máli er Daníel þó aðeins ákærður fyrir fyrri árásina.

Í ákæru sem gefin var út 10. september segir:

„með því að hafa að kvöldi föstudagsins 21. júní 2024, á göngustíg við Lund 5 í Kópavogi, veist að A, kt. […], með hnífi og stungið hann a.m.k. fjórum hnífstungum í háls, síðu og nára og þannig reynt að svipta A lífi. Við atlöguna hlaut A alvarlega stunguáverka, nánar tiltekið 1-2 cm stungusár neðarlega á hálsi hægra megin aðlægt hálsbláæðum og hálsslagæðum, um 5 cm stungusár á hægra brjóstholi með rofi í 7. hægra rifbeini og blóðsöfnun í brjóstholi umhverfis lunga, auk áverka framanvert á lifur, 8-10 cm skurð neðan til við hægri rifjaboga með undirliggjandi áverka aftanvert á lifur og grunnan skurð í hægri nára.“

Daníel Örn er einnig dæmdur til að greiða þolanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum, 202.672 krónur vegna sjúkrakostnaðar og munatjóns og 413.444 króna þjáningabætur, hvort tveggja með dráttarvöxtum. Auk þess þarf hann að greiða 6.538.226 krónur í sakarkostnað, þar með talda 806.000 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, 3.868.800 króna málsvarnarlaun verjanda síns og 104.904 króna aksturskostnað. Viðurkennd er skaðabótaskylda ákærða vegna líkamstjóns sem brotaþoli varð fyrir af hans völdum föstudaginn 21. júní 2024. Fjaðurhnífur notaður við verknaðinn var haldlagður.

Orðaskipti og átök á göngustíg

Atvikum árásarinnar er lýst í dóminum. Þar kemur fram að klukkan 22:33 föstudagsins 21. júní síðastliðinn var lögregla kvödd að Lundi 5 í Kópavogi vegna hnífstungu. Þar lá brotaþoli blóðugur í grasbrekku við fjölbýlishúsið. Hjá honum krupu eiginkona hans og vinkona þeirra og héldu konurnar þrýstingi á opnum sárum á kvið og hálsi brotaþola. Hann hafði orðið fyrir umtalsverðum blóðmissi og var færður á bráðamóttöku LSH í Fossvogi. Í frumskýrslu lögreglumanns er haft eftir konunum að þær, brotaþoli og eiginmaður vinkonunnar hafi verið á leið heim eftir kvöldverð á nálægum veitingastað og verið stödd á göngustíg við Lund 5 þegar ókunnur maður  kom á móti þeim á rafskútu og kallaði ókvæðisorð að hópnum. Vinkonan hafi reynt að róa manninn og beðið hann að halda för sinni áfram, hann hafi brugðist illa við, brotaþoli þá gengið til hans og reynt að tjónka við hann, það leitt til átaka þeirra í milli, brotaþoli fallið til jarðar og hópurinn þá áttað sig á því að hann hefði verið stunginn í háls og kvið. 

Daníel Örn flúði af vettvangi og hinn karlmaðurinn veitti honum eftirför og yfirbugaði nálægt fjöruborði við Sæbólsbraut 40. Þar lágu þeir á jörðinni og karlmaðurinn með ákærða í hálstaki þegar lögreglumaður  kom að þeim. Ákærði var með áverka í andliti og karlmaðurinn með skurð á hægri hendi, sem hann kvað ákærða hafa veitt sér með hnífi þegar þeir tókust á við fjöruborðið. Ákærði hafi svo kastað hnífnum frá sér  áður en lögregla kom á staðinn. Ákærði þrætti fyrir að hafa verið með hníf, sem þó fannst nálægt þeim stað þar sem mennirnir lágu og var hnífurinn haldlagður. 

Á hljóð- og myndupptöku úr búkmyndavél lögreglumanns heyrast m.a. þessi orðaskipti ákærða (Á) og þess sem veitti honum eftirför (E):  Á: „Hann réðist á mig.“ E: „Réðist á þig, þú stakkst mann fávitinn þinn, ég horfði á þig stinga mann.“ Á: Nei, hann kýldi mig í hausinn og ég hljóp í burtu.“ E: Nei, þú stakkst hann í hálsinn.“ Á: „Stakk ég hann í hálsinn, ég gerði það ekki rassgat.“

Ákærði, brotaþoli og vinur hans voru fluttir til aðhlynningar á bráðamóttöku LSH og dregin blóðsýni úr þeim til vímuefnarannsókna. Samkvæmt niðurstöðum þeirra rannsókna mældist í blóði ákærða etanól 0,30 ‰, Demoxepam 220 ng/ml, Desmetýlklódíazepoxíð 420 ng/ml, Klórdíazepoxíð 330 ng/m., Metýlfenidat 7,0 ng/ml, Nordiazepam 140 ng/ml og Oxýkódon 180 ng/ml. Í blóði vinarins sem veitti ákærða eftirför mældist alkóhólmagn (etanól) 1,75 ‰ og í blóði brotaþola 1,27 ‰. Samkvæmt matsgerðum bendi þær niðurstöður til þess að báðir brotaþolar hafi verið ölvaðir þegar sýni voru tekin.

Sagði hjónin hafa hótað og ógnað sér

Í frumskýrslu lögreglumanns, sem einnig kom á staðinn, er haft eftir ákærða að hann hafi verið á leið um göngustíg við Lund 5 á rafskútu þegar hann mætti fjórmenningum sem hafi þverað göngustíginn. Ákærði hafi aðvarað hópinn með því að hringja bjöllu á rafskútunni, hann síðan rekist utan í einn úr hópnum, hópurinn í framhaldi ógnað og hótað honum og brotaþoli kýlt hann í andlitið. Ákærði hafi reynt að kýla hann á móti, það ekki tekist og ákærði hlaupið á brott.

Í skýrslu hjá lögreglu á bráðamóttöku sagði brotaþolinn sem lá í valnum að ákærði hafi komið á töluverðri ferð á móti fjórmenningunum eftir göngustígnum og reiddist því að hópurinn skyldi ekki víkja úr vegi fyrir honum. Sökum þess hafi komið til orðaskaks milli ákærða og mannsins sem síðar veitti honum eftirför, sá hafi verið dreginn frá, brotaþoli svo reynt að róa ákærða og sett hönd á bringu hans, ákærði þá dregið hníf úr vasa sínum og stungið brotaþola í síðuna. Brotaþoli kvað þetta hafa gerst mjög hratt, hann ekki séð hnífinn í hendi ákærða, haldið að um annars konar högg væri að ræða, hann brugðist við með því að greiða ákærða 2-3 högg á móti, ákærði þá stungið hann nokkrum sinnum í viðbót, m.a. í hálsinn, brotaþoli hörfað frá og þá fyrst áttað sig á því að hann hefði verið stunginn með hnífi. Við svo búið hafi ákærði hlaupið á brott og vinurinn veitt honum eftirför. 

Sagðist hafa tekið hnífinn með til að sýna vini sínum

Fyrir dómi sagðist ákærði hafa horft á EM leik í fótbolta á heimili sínu þetta kvöld og drukkið tvo litla bjóra yfir leiknum og einhverju seinna lagt af stað á rafskútu í heimsókn til vinar síns. Ákærði sagðist hafa tekið með sér fjaðurhníf sem hann keypti í Kolaportinu, leit á sem safngrip, og vildi sýna vini sínum. Segist hann hafa mætt fjögurra manna hópi og ekki komist framhjá þeim á stígnum, hann hafi því dregið úr hraða rafskútunnar, hringt bjöllu í aðvörunarskyni, sveigt skútunni yfir að hægri brún stígsins og ekki búist við öðru en að sá sem þar gekk myndi víkja úr vegi. Það hafi hann ekki gert og ákærða fundist þvert á móti reka aðra öxlina í hann, með þeim afleiðingum að ákærða fipaðist stjórn rafskútunnar og var nærri dottinn. Ákærði segist hafa spurt vin brotaþola hvað honum gengi til og hann þá æst sig og sagt ákærða ekki eiga að vera með rafskútu á göngustíg. Ákærði hafi svarað því til að hann hefði ekki um annan stíg að fara, því enginn væri hjólastígurinn á þessum tiltekna stað. Við þetta hafi vinur brotaþola orðið mjög æstur, ákærði því bakkað frá honum, konurnar tvær tekið vin brotaþola afsíðis og brotaþoli tekið ákærða tali. Brotaþoli hafi verið pollrólegur, staðið þétt upp við ákærða og ekki verið ógnandi á nokkurn hátt þegar önnur kvennanna öskraði eitthvað á þá leið: „Þú veist ekkert litli strákur, farðu bara heim til þín“. Ummælin hafi sært ákærða og hann svarað fullum hálsi eitthvað á þessa leið: „Þegiðu hóran þín eða tussan þín“. 

„Að sögn ákærða hafði hann vart látið hin dónalegu ummæli falla þegar brotaþoli sagði „nú er nóg komið“ og greiddi honum óvænt tvö mjög föst hnefahögg í andlit. Þegar það gerðist hafi ákærði staðið beint fyrir framan brotaþola og með báðar hendur í vösum, þó ekki haldið um fjaðurhnífinn, hann vankast við höggin, brotaþoli greitt honum 1-2 högg í viðbót, ákærði fyllst ofsahræðslu, gripið til hnífsins, dregið hann úr vasa sínum, þrýst á þar til gerða fjöður til að skjóta hnífsblaðinu fram og sveiflað hnífnum í kringum sig í varnarskyni án þess að hugleiða hvert hnífurinn stefndi. Greind atburðarás hafi aðeins tekið 3-5 sekúndur, ákærði haldið að hann yrði í framhaldi laminn í klessu af brotaþola og samferðafólki hans eða þau myndu jafnvel drepa hann og ákærði því flúið skíthræddur af vettvangi án þess að taka rafskútuna með sér. Ákærði staðhæfði að á þeim tímapunkti hafi hann ekki verið búinn að átta sig á því að hann hefði sært brotaþola með hnífnum, ákærði á engum tímapunkti gert sér grein fyrir hættu sem af hnífnum gæti stafað og hann aldrei ætlað að skera, stinga eða með öðrum hætti meiða brotaþola með hnífnum. Ákærði viti nú að hann hafi valdið brotaþola þeim áverkum sem frá greinir í ákæru og gangist við því. “

Sagði ákærði að samræður hans og brotaþola hafi verið í rólegheitum þar til ákærði lét ljótu orðin falla, þá hafi brotaþoli snöggreiðst og kýlt hann.

Ákærði sagðist hafa tekið ávísuð lyf fyrr um daginn, verkjalyf og lyf frá geðlækni.

Dómari hafnaði því að um neyðarvörn hafi verið að ræða

Áverki á hálsi, sem náði inn að barka og áverkar á kvið, sem náðu inn að lunga og lifur og sködduðu rifbein, sem og mikill blóðmissir strax í kjölfar atlögunnar, styðji eindregið þá ályktun að um hnífstungur hafi verið að ræða og því standist ekki sú viðbára ákærða að hann hafi sveiflað hnífnum tilviljunarkennt út í loftið og óvart skorið brotaþola. Beri því að sakfella ákærða fyrir tilraun til manndráps, jafnvel þótt ásetningsstig verði eftir atvikum fært úr líkindaásetningi niður í lægsta stig ásetnings; dolus eventualis. Ákæruvaldið hafnar því að neyðarvarnarsjónarmið 12. gr. almennra hegningarlaga komi til álita við úrlausn máls, sem og refsilækkunarsjónarmið 74. og 75. gr. eða að sönnuð háttsemi ákærða verði færð undir 2. mgr. 218. gr. laganna. 

Dómari sagði í niðurstöðu sinni að ekki væri hægt að líta svo á að um neyðarvörn hefði verið að ræða.

„Það er álit dómsins að jafnvel þótt brotaþoli hafi kýlt ákærða í andlitið áður en ákærði greip til fjaðurhnífsins verði slíku höggi eða höggum frá brotaþola aldrei jafnað saman við það að stinga vopnlausan mann ítrekað með hnífi í bol og háls. Að teknu tilliti til allra atvika og kringumstæðna að háttsemi ákærða þykir ekkert haldbært fram komið af hans hálfu sem réttlætt gat beitingu svo hættulegs vopns í samskiptum hans og brotaþola. Verður því ekki fallist á að 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga geti leyst ákærða undan refsingu.“

Daníel Örn var í desember 2023 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fíkniefnalaga- og lyfjalagabrot. Rauf hann skilorð með árásinni í sumar og var því eldra málið tekið upp og dæmt í einu lagi fyrir öll brotin.

Tilraun til manndráps varðar fangelsi ekki skemur en fimm ár, en dómari taldi með tilliti til allra atvika og sönnunargagna refsingu ákærða hæfilega ákveðna í einu lagi fangelsi í fjögur ár. Kemur til frádráttar þeirri refsingu gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 22. júní 2024, að fullri dagatölu. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“