Eins og kunnugt er hefur Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, falið Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, að hefja viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Átti Kristrún góðan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, og má allt eins búast við því að þessir þrír flokkar nái saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
„Möguleg ríkisstjórn þessara flokka hefði 36 þingmenn að baki sér, sem er ríflegur meirihluti, og hefur nokkuð upp á að hlaupa ef einhver í stjórnarliðinu skyldi bila, sem er góð varúðarráðstöfun. Hinu er ekki að neita að uppi eru efasemdir um hversu lífvænleg ríkisstjórn þessara flokka væri, en í því samhengi beinast flestra augu að Flokki fólksins,“ segir leiðarahöfundur og bendir á að þar sé Inga óskoraður leiðtogi en að þingliðið sé nokkuð „sundurleit hjörð“ sem komi úr ólíkum pólitískum áttum. Sumir þar á bæ séu vanir að fara eigin leiðir þegar hentar, jafnvel á dyr.
„Í því samhengi má minna á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar geldur ugglaust varhug við óstöðugum samstarfsflokkum, minnug þess þegar Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnarsamstarf um lágnættið fyrir sjö árum,“ segir höfundur sem nefnir einnig ýmsar persónulegar ýfingar á milli fulltrúa þessara flokka.
„Inga Sæland hefur örugglega ekki gleymt því að Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar sakaði hana í fyrra um útlendingaandúð í ræðustól á Alþingi. Á milli borgarfulltrúanna Dags B. Eggertssonar og Kolbrúnar Baldursdóttur, þingmanns Flokks fólksins, eru vægast sagt engir kærleikar heldur. Sem fyrr segir er meirihluti þessara flokka þó ríflegur og hugsanlega leggja menn í þennan róður, þótt áhöfnin sé misefnileg,“ segir leiðarahöfundur.
Hann segir að þá eigi eftir að semja um málefnin og þar gætu málin flækst.
„Ekki endilega um Evrópumálin, því Inga Sæland gaf eindregið til kynna í vel heppnuðu kosningauppgjöri Spursmála fyrir opnum tjöldum á sunnudag að það væri allt umsemjanlegt. Þar verða ríkisfjármálin örugglega erfiðari hjalli, því að Viðreisn hét því að hækka enga skatta en hið stóra plan Samfylkingarinnar byggist á því að auka skattheimtu ákaflega (að breskri fyrirmynd) til þess að auka ríkisútgjöld mjög myndarlega. Inni í því plani rúmast hins vegar engan veginn stórkostlegar útgjaldahugmyndir Flokks fólksins, sem taka öllu öðru fram,“ segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins og bendir á að þarna séu um að ræða meginkosningastef flokkanna þriggja og þau séu algjörlega ósamrýmanleg.
„Ef úr því stjórnarsamstarfi á að verða þurfa þess vegna tveir stjórnarflokkanna að svíkja sín aðalkosningaloforð áður en haninn galar einu sinni, hvað þá meir.“