Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem snýst um kröfu fyrirtækis um að kona sem leigt hefur húsnæði í eigu þess verði borin út. Kröfu fyrirtækisins var hins vegar hafnað meðal annars á þeim grundvelli að ekki hefði komið nægilega vel fram í beiðninni um útburð að forsvarsmaður fyrirtækisins og konan væru hjón sem standi í skilnaðarferli.
Með úrskurði Landsréttar fylgir úrskurður héraðsdóms í málinu sem kveðinn var upp í september síðastliðnum.
Í úrskurðinum kemur fram að leigusamningur var gerður á milli konunnar og fyrirtækisins í maí 2022. Fram kemur í samningnum að um sé að ræða tveggja herbergja húsnæði sem er 30 fermetrar að stærð. Húsaleigan var 40.000 krónur á mánuði og skyldi greiðast fyrsta hvers mánaðar en rafmagn og hiti voru ekki innifalin.
Í beiðni leigusalans um útburð var fullyrt að konan hefði ekki greitt leiguna eða fyrir hita og rafmagn í heilt ár. Alls krafðist fyrirtækið greiðslu á um 870.000 krónum. Eftir að konan varð ekki við því að greiða þessa upphæð, að sögn leigusalans, var leigusamningnum rift og útburðar krafist. Hvergi kom hins vegar fram hver tengsl forsvarsmanns fyrirtækisins og konunnar raunverulega voru.
Í greinargerð konunnar kom hins vegar fram að þau væru hjón í skilnaðarferli en þau giftust 2010. Í gögnum sem konan lagði fram var greint frá því að hún og forsvarsmaður fyrirtækisins hefðu verið skráð í sambúð frá 2001 og frá 2000 til 2022 með sama heimilisfang í fasteign sem fyrirtæki mannsins var skráður kaupandi að. Konan hafði hins vegar sjálf tekið lífeyrissjóðslán með veði í eigninni. Konan sagði að samvist hjónanna hefði verið slitið 2022 en ekki hefði verið enn gengið frá skilnaði eða fjárskiptum vegna ágreinings milli hennar og mannsins.
Konan benti á í sinni greinargerð að viðskiptaferill manns hennar hafi einkennst af vafasömum viðskiptum og hann þess vegna ekki skráður fyrir neinum eignum. Maðurinn sé bæði gjaldþrota og með dóm á bakinu fyrir skattalagabrot. Þau hafi á sambúðarárum sínum eignast nokkrar eignir sem séu enn í eigu þeirra eða hafi verið seldar. Vegna viðskiptaferils mannsins hafi ekkert af eignunum verið skráðar á nöfn þeirra heldur fyrirtæki sem séu skráð á fjölskyldumeðlimi. Fyritækið sem eigi það húsnæði sem hún hafi leigt sé skráð á son mannsins, stjúpson hennar.
Lagði konan fram gögn sem sýndu fram á að húsnæðið sem hún leigði væri hluti af 166 fermetra húsi sem hún og maðurinn hefðu keypt. Húsnæðið sem getið væri í samningnum væri bílskúr sem innréttaður hefði verið sem íbúð. Samið hefði verið um, í kjölfar samvistarslitanna, leigusamninginn til málamynda svo hún gæti sótt um húsnæðisbætur og til að auka tekjur heimilisins á meðan fjárskipti stæðu yfir. Fram kom einnig að konan hefði sótt um félagslegt leiguhúsnæði.
Lögmaður fyrirtækisins vildi hins vegar meina fyrir dómi að konan væri að leigja húsið sjálft sem væri 130 fermetrar, án bílskúrsins, en ekki bara 30 fermetra íbúðin í bílskúrnum eins og kæmi fram í leigusamningnum. Það hafi alltaf staðið til að hún tæki allt húsið á leigu. Konan hafi ekki bara búið í íbúðinni í bílskúrnum og hafi sannarlega ekki greitt leiguna. Hjónaband hennar og mannsins og skilnaðarferlið þeirra á milli hafi enga þýðingu í málinu.
Lögmaður konunnar fór fyrir dómi fram á frávísun á þeim grundvelli að beiðnin um útburð væri byggð á villandi upplýsingum og það ætti sérstaklega við um títtnefndan leigusamning sem ætti ekki við um eignina sem konan byggi í. Samningurinn hafi alltaf átt að vera til málamynda og leigugreiðslur aðeins inntar af hendi hluta af samningstímanum til að einhverjar greiðslur væru skráðar vegna umsóknar konunnar um húsnæðisbætur. Einnig benti lögmaðurinn á að fyrirtækið sem ætti húsnæðið yrði óhjákvæmilega hluti af eignaskiptunum á milli konunnar og mannsins.
Héraðsdómur varð ekki við því að vísa beiðni fyrirtækisins um útburð frá á þeim grundvelli að hún uppfyllti formkröfur laga.
Í niðurstöðu dómsins, sem eins og áður segir var staðfest af Landsrétti, kemur fram að það sé ótvírætt að leigusamningurinn lýsi ekki með réttum hætti því húsnæði sem konan hafi leigt af fyrirtækinu. Það sé einnig ljóst að tilgreind húsaleiga í samningnum sé alls ekki í samræmi við markaðsverð.
Héraðsdómur segir einnig ljóst að í beiðninni um útburð hafi þess aldrei verið getið hver raunveruleg tengsl mannsins, forsvarsmanns fyrirtækisins sem skráð er sem eigandi hússins, og konunnar séu í raun og veru. Þessar upplýsingar hafi fyrst komið fram í greinargerð konunnar. Þar að auki hafi með beiðninni fylgt hinn títtnefndi leigusamningur með röngum upplýsingum um það húsnæði sem konan væri raunverulega að leigja.
Dómurinn segir því vafasamt að treysta á málatilbúnað fyrirtækisins sem lagði fram beiðnina um útburð. Ágreiningsatriði í málinu og hvort leigusamningurinn hafi verið málamyndagjörningur verði að skera úr um í einkamáli en ekki í úrskurði vegna beiðni um útburð. Réttmæti kröfunnar um útburð sé ekki hafið yfir allan vafa og því sé henni hafnað.
Landsréttur staðfesti síðan þessa niðurstöðu héraðsdóms í gær.