Málið er merkilegt fyrir þær sakir að þar má sjá hvernig ÁTVR reynir viljandi að koma í veg fyrir sölu ódýrs áfengis. Telur stofnunin að slíkt muni skapa aðstæður þar sem ódýrt áfengi myndi flæða inn í verslunina sem færi gegn stefnu ríkisins um að takmarka áfengisneyslu Íslendinga og um verðstýringu áfengis. Eins myndi það bitna á innlendum framleiðendum sem framleiða áfengi í litlum mæli sem og á svokölluðum eðalvínum.
Það var innflutningsfyrirtækið Dista ehf. sem stefndi ÁTVR í málinu og krafðist þess að ógilt yrði ákvörðun stofnunarinnar um að fella ofangreinda bjóra úr vöruúrvali sínu og hætta innkaupum þeirra.
Viðskiptablaðið ræddi við lögmann Dista, Jónas Fr. Jónsson, sem segir dóminn mjög skýran. Um sé að ræða kennslubókardæmi um atvinnufrelsi og lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrár. Ljóst sé að stofnunin hafi ekki bara valdið Dista skaða með ákvörðun sinni heldur líka neytendum með því að ýta að þeim óþarflega dýrri vöru.
ÁTVR byggði ákvörðun sína á því að framlegð af sölu bjóranna væri ekki nógu mikil til að réttlæta sölu þeirra en framlegð er orð sem er notað yfir tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Með öðrum orðum þá þótti bjórinn ekki nógu dýr svo salan var ekki að skila ÁTVR miklum peningum, þó svo bjórinn væri að seljast vel.
Hæstiréttur rakti að þessi ákvörðun ætti sér ekki stoð í lögum um verslun með áfengi og tóbak. Samkvæmt lögunum ber ráðherra að setja nánari reglur um vöruúrval og dreifingu ÁTVR á áfengi. Reglurnar skuli miða að því að tryggja vöruúrval, meðal annars með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu.
Á grundvelli laganna var sett reglugerð þar sem kom fram að framlegð skuli ráða vöruúrvali. Hæstiréttur rak að það gæti í einhverjum tilvikum verið svo að eftirspurn og framlegð skili sömu niðurstöðu en þó þurfi að horfa til þess að þessi tvö viðmið byggja á ólíkum forsendum og geta því leitt til mismunandi niðurstaðna eins og í tilviki Faxe-bjóranna umþrættu. Þessir tilteknu bjórar nutu meiri eftirspurnar en aðrir bjórar sem ÁTVR ákvað þó að halda áfram að selja þar sem þeir skiluðu meiri framlegð.
Hæstiréttur áréttaði að lagafyrirmæli sem liggja fyrir skerðingu á atvinnufrelsi þurfa að vera skýr og verða ekki túlkuð með rýmri hætti, borgurum í óhag, en leitt verði af skýrri orðanna hljóðan eða afdráttarlausum vísbendingum í lögskýringagögnum þegar vafi er um túlkun. Slíkt ætti ekki við í máli þessu.
Dista ehf. benti á að meiri eftirspurn hafi verið eftir Faxe Witber en fjórum öðrum bjórtegundum í sama kjarnaflokki, sem þó héldu stöðu sinni, og meiri eftirspurn eftir Faxe IPA en níu öðrum bjórtegundum sem áfram héldu stöðu sinni. Dista rakti að framlegð mæli ágóða af viðkomandi vöru og það gangi beinlínis gegn hagsmunum neytenda að miða söluskrá við slíkt. Þar með sé verið að hampa dýrari vöru á kostnað neytenda.
ÁTVR bar því við að ef vöruval ætti sér stað á grundvelli eftirspurnar myndi framboð á ódýrari vöru aukast á kostnað annarra vörutegunda vegna verðsamkeppni birgja og slíkt stríddi gegn áfengisstefnu stjórnvalda. Þessu mótmælti Dista sem og fullyrðingum um að framlegðarviðmið vinni gegn „skaðlegri neyslu áfengis, tryggi vörur af meiri gæðum, hamli flæði ódýrs áfengis og auðveldi íslenskum framleiðendum að koma vörum inn í verslanir stefnda.“
ÁTVR bar því eins við að með því að miða við framlegð væri höfð hliðsjón af eftirspurn en á sama tíma væru gæði varanna tryggð. „Aukin gæði hækki vöruverð og þar með framlegð.“
Hæstiréttur sagðist ekki taka afstöðu til þess hvort framlegð kynni, eftir atvikum að breyttum lögum, að vera málefnalegur grundvöllur vöruvals í ÁTVR. En samkvæmt núverandi lögum sé ekki heimilt að miða við framlegð þar með hafi ákvörðun ÁTVR skort lagastoð og brotið gegn stjórnarskrá. Ákvörðun ÁTVR var því felld úr gildi.