Jólaösin er ævintýraleg og það er ekki laust við að blaðamaður sjái eftir því hugsunarleysi að bóka viðtal klukkan 17 á virkum degi í úthverfi borgarinnar. Rúmum 20 mínútum of seint bankar hann móður og másandi á útidyrahurð íbúðar sem er á jarðhæð í stóru fjölbýlishúsi í úthverfi borgarinnar.
Kona kemur til dyra. Frekar þreytuleg og talsvert öðruvísi en blaðamaður hafði ímyndað sér. Kunningi hafði bent á viðkomandi með þeim orðum að konan hefði búið yfir skyggnigáfu frá unga aldri en lítið nýtt hana nema fyrir vini og ættingja. Vel menntuð og fylgdist vel með fréttum og samfélaginu en hefði glímt við ýmsa erfiðleika í gegnum tíðina og verkefni sem þetta væri kærkomið fyrir jólin.
Blaðamanni er vísað inn í stofu þar sem snjáður og þægilegur sófi bíður hans. Völvan býður upp á kaffi, sem blaðamaður kann ekki við annað en að þiggja þrátt fyrir að tilheyra þeim agnarsmáa hóp stéttarinnar sem finnst kaffi vont! Völvan fær sér sæti í hægindastól á móti, tekur sopa úr sínum bolla og blaðamaður hermir eftir. Hvaða bragð er þetta eiginlega af kaffinu?.
Ekki vinnst mikill tími til að velta því fyrir sér því skyndilega ræskir völvan sig, brosir óræðu brosi og hvessir augun á blaðamann, sem kippist til í sófanum og verður vandræðalegur – reynir að brosa og ræskir sig líka.
„Við skulum hefjast handa. Eins og við töluðum um þá læt ég bara dæluna ganga og þú dundar þér svo við að koma þessu saman í samfelldan texta. Ókei?“
Blaðamaður kinkar kolli, annars hugar á meðan hann skyggnist eftir leiðum til að losa sig við kaffisullið svo lítið beri á.
Völvan verður skyndilega alvarleg á svip. Ræskir sig á ný, beinir augunum að blaðamanni, lítur svo á kaffikrúsina og teygir sig eftir henni með báðum höndum, ber upp að vörum sér og fær sér góðan sopa. Nú hallar hún sér aftur í stólnum, lygnir aftur augunum andartak áður en hún opnar þau og lítur ákveðin á blaðamann.
„Nýja árið byrjar með mikilli velgengni á íþróttasviðinu. Við erum stemningsfólk og ég sé að þjóðin verður alveg heltekin,“ segir völvan. Hún bætir við að hún viti ekkert um íþróttir en blaðamanni verður óneitanlega hugsað til HM í handbolta sem framundan er.
„Það gæti vel verið. En ég sé að fólk í mismunandi greinum skara fram úr á næsta ári. Þetta verður gott ár fyrir íþróttir,“ segir völvan.
Hún segir að gosórói verði víða á landinu en draga muni úr honum á Reykjanesi. „Það kemur pása, örstutt á jarðfræðilegan mælikvarða en okkur mun líða eins og að hamförunum á Reykjanesi sé lokið.“ Við taki mikil umræða um framtíð Grindavíkur og hvað skuli til bragðs taka þar og skoðanir verði skiptar.
„Það var hræðilegur fjöldi af ofbeldis- og morðmálum sem komu upp á síðasta ári en mér finnst að þróunin verði í jákvæða átt á þessu ári. Færri alvarleg mál koma upp og það er eins og einhver ólga í samfélaginu sé að hjaðna.“
Að sögn völvunnar verður pólitíkin afar fyrirferðamikil á komandi ári. Það gneistar úr augum hennar þegar sú yfirferð hefst og ljóst að þar liggur djúpstæður áhugi.
„Nýja ríkisstjórnin fær góðan byr og vinsældirnar verða miklar strax í ársbyrjun. Ég skynja létti hjá stórum hluta þjóðarinnar að vera komin með ríkisstjórn þar sem ráðherrarnir eru fullir eldmóðs og vita hvað þeir vilja og þurfa að gera. Veistu, það voru allir búnir að fá sig svo fullsadda á öllu þessu rifrildi þar sem ríkisstjórnin gat ekki orðið sammála um nokkurn skapaðan hlut. Á næsta ári mun fólkið sjá ráðherra sem vinna saman og vinsældirnar verða eftir því,“ segir völvan
„Traustið og vináttan milli valkyrjanna er enginn sýndarleikur. Þetta er raunverulegt. Þetta eru í alvöru nýir tímar,“ segir völvan og teygir sig aftur eftir ódrekkandi glundrinu. „Ég sé að það kemur upp eitthvert mál þar sem Inga Sæland þykir vera ansi yfirlýsingaglöð og sumum finnst hún fara út fyrir sitt verksvið. Stjórnarandstaðan mun grípa málið á lofti og ráðast af hörku á bæði Ingu og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra, enda sjá karlfauskarnir í stjórnarandstöðunni þarna fyrsta sénsinn á að reka fleyg milli valkyrjanna. Þeim verður nú ekki að ósk sinni. Kristrún og Inga taka saman góðan fund í trúnaði og vandamálið verður úr sögunni. Svo sé ég hér fyrir mér að ánægja verður með þau mál sem Flokkur fólksins setur á oddinn í þessari ríkisstjórn. Það mun ekki kosta jafn mikið fyrir ríkissjóð og margir óttuðust að gera betur við þá sem eru verst settir í þjóðfélaginu.“
Völvan spennir greipar, teygir úr handleggjunum og lætur braka í hnúum. Svo heldur hún áfram:
„Þorgerður Katrín er náttúrlega ákveðin þungavigt í þessari ríkisstjórn, með alla sína reynslu, glæsileika og þokka. Hún hefur það svo til viðbótar að hún veit nákvæmlega hvernig Sjálfstæðisflokkurinn virkar, hún er nú einu sinni fyrrverandi varaformaður þar á bæ. Það hræðir sjálfstæðismenn, enda ráðast þeir endalaust á hana. Nú stígur hún fram á alþjóðasviðið sem utanríkisráðherra Íslands sem eftir er tekið. Hún mun njóta sín á fundum Nató, þar sem hún, fulltrúi herlausu þjóðarinnar, verður fullkominn jafnoki ráðamanna stórþjóðanna.“
Völvan segir Kristrúnu Frostadóttur munu festa sig í sessi á nýju ári sem gríðarlega öflugur leiðtogi. „Hún Kristrún hefur alveg sýnt að hún er nagli sem gefur engum neinn afslátt. Hún mun ekki spara stóru orðin þegar hún fer að takast á við sægreifa sem verða æfir vegna þess að hennar ríkisstjórn mun hækka veiðigjöld og horfa á hagsmuni smábáta en ekki bara stórútgerðarinnar. Samtök sægreifanna og Viðskiptaráð munu aldeilis senda ríkisstjórninni tóninn en Kristrún svarar fullum hálsi og sýnir hvar valdið liggur. Þessi átök verða hörð og áhugaverð, en það eru komnir nýir tímar.“
Völvan segist skynja stjórnarandstöðuna sem svekkta, tætta og vegalausa: „Sjálfstæðisflokkurinn er nú alls ekki í sínu náttúrulega umhverfi þegar hann er í stjórnarandstöðu. Ég sé ekki betur en að þar innan dyra muni magnast upp átök. Sumir vilja tafarlaust uppgjör eftir ríkisstjórnarsamstarfið með Vinstri grænum en aðrir vilja bíða með uppgjörið. Bjarni Ben veit ekki hvort hann er að koma eða fara, en hann er að fara. Hann bara veit það ekki sjálfur. Meðan á þessu gengur verður pirringurinn alls ráðandi í flokknum og hann ónýtur með öllu í stjórnarandstöðu.“
Völvan segist sjá Framsóknarflokkinn í sárum. Ekkert muni ganga hjá Sigurði Inga að reyna að blása lífi í flokksstarfið. „Ég sé ekki betur en að Sigurður Ingi hætti í stjórnmálunum í haust. Hann boðar til landsfundar og þar verður kosinn nýr formaður. Það verður ekki eining um nýjan formann en Sigurður Ingi nær sínum lokasigri í flokksstarfinu og fær sinn frambjóðanda, Höllu Hrund Logadóttur, sem nýjan formann. Þegar Sigurður er horfinn af sviðinu fara í gang alvarlegar viðræður milli stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknar, Miðflokks og Sjálfstæðisflokksins, um sameiningu en Sjálfstæðisflokkurinn mun snarlega draga sig út úr þeim viðræðum þegar ljóst verður að hinn sameinaði flokkur á ekki að heita Sjálfstæðisflokkurinn, flokksmerkið verður ekki fálkinn og formaður Sjálfstæðisflokksins verður ekki formaður sameinaða flokksins. Samt sýnist mér áframhaldandi samningaviðræður verða milli Miðflokks og Framsóknar og í árslok verður Sigmundur Davíð nálægt því að verða aftur formaður Framsóknarflokksins.“
Völvan sér Bjarna Benediktsson fara halloka innan Sjálfstæðisflokksins á árinu 2025. Hann muni ná að fresta landsfundi fram í október en þá verði Guðlaugur Þór Þórðarson kjörinn formaður, einmitt það sem Bjarni vill síst. Flokkurinn muni nötra stafna á milli en eftir formannsskiptin aukist fylgið til muna.
„Verðbólgan lækkar svo ekki eins hratt og allir vildu sjá, ekki síst nýja ríkisstjórnin. Vextir Seðlabankans lækka eitthvað í febrúar, en alls ekki nógu mikið. Mikil gagnrýni kemur fram á Seðlabankann og yfirstjórn hans. Ég sé ekki betur en að nýir þingmenn muni vilja aðgerðir. Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, mun krefjast úttektar á störfum Seðlabankans og því hvers vegna mörg hundruð manns séu á launaskrá hjá svona litlum seðlabanka. Ég held samt að vextir haldi áfram að lækka og verði komnir niður í sex prósent næsta haust. Það verður hins vegar lítil hrifning hjá fólki með það vegna þess að verðbólgan verður komin niður í þrjú prósent.“
Nú stendur völvan upp, tekur kaffikrúsina af borðinu og teygar hana. Ropar létt og segir blaðamanni afsakandi að hún þurfi að fá sér annan bolla. Býður blaðamanni blessunarlega ekki áfyllingu.
Kemur skömmu síðar og ekki rýkur úr krúsinni. Blaðamaður sér glitta í Baileys-flösku inni í eldhúsi. Völvan sest á ný og fær sér góðan slurk úr krúsinni. Vindur síðan talinu að öðru:
„Evrópumálin verða mjög í forgrunni árið 2025. Norðmenn munu stefna að ESB aðild og það breytir stöðunni hér á landi þannig að öll umræða snýst um ESB. Niðurstaðan verður sú að boðað verður til þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun október 2025 um það hvort Ísland eigi að taka upp viðræður við ESB um inngöngu og upptöku evru. Mér sýnist 60% kjósenda segja já. Eftir atkvæðagreiðsluna verða deilur um það hvort kjörsókn hafi verið nægileg til að taka svo stóra ákvörðun. Mótmæli breyta samt engu. Andstæðingar ESB verða gríðarlega reiðir og æstir í kjölfar þessarar niðurstöðu. Kristalsglösin munu glamra í mótmælaskyni, flautur úr Range Rover þeyttar en almenningur mun fá sitt fram.“
Völvan sér fyrir sér að miklar sviptingar verði í Sjálfstæðisflokknum um forystusæti fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2026. Hún sér fyrir sér að öllum borgarfulltrúum flokksins nema einum verði skipt út. „Mér sýnist hún Áslaug Arna fara í slaginn og leiða Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum Ég er þó ekki viss um að þetta skýrist á næsta ári. Veistu, þessi náðargáfa þekkir nú ekki alltaf dagatalið! En mér sýnist Áslaug Arna fara í frí frá þingstörfum strax á næsta ári til að undirbúa kosningarnar.“
Völvan segir atvinnuástand verða gott á Íslandi og fyrirtæki munu almennt ganga vel. Eigendur stærri sjávarútvegsfyrirtækja muni barma sér mikið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og hafa í hótunum en „grátkór þeirra muni ekki ná eyrum fólks. Farsæll vöxtur verði í ferðaþjónustu á Íslandi eftir að eldsumbrot á Reykjanesi hætta loks. Byggingariðnaður tekur vel við sér með lækkandi vöxtum og verðbólgu. Á íslenskum hlutabréfamarkaði verða menn sáttir.“
Völvan segir að eftir því sem líði á árið 2025 muni umræða aukast um að ekki verði komist hjá skattahækkunum vegna þess hve staða ríkissjóðs var slæm við stjórnarskiptin í lok árs 2024. Þess muni sjá stað í fjárlögum ársins 2026. „Mér sýnist að mikið muni nást með því að draga úr ríkisútgjöldum og selja ríkiseignir til að grynna á skuldaklafa ríkissjóðs sem safnaðist upp í tíð fyrri stjórnar. Í vor verður lokið við sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka og sala á drjúgum hluta af Landsbankanum hefst næsta haust af krafti, vegna þess hve staða ríkissjóðs er vond eftir síðustu ríkistjórn,“ segir völvan og lítur hugsandi á blaðamann.
Hún segir að loks muni draga til tíðinda á Morgunblaðinu. „Davíð Oddsson verður 77 ára í janúar og dagar hans á blaðinu senn taldir. Nýr ritstjóri verður brátt kynntur til sögunnar. Hann kemur ekki úr hópi hópi núverandi starfsmanna heldur annarri átt og mun ráðning hans koma mörgum á óvart – en þó ekki svo. Mikið verður reynt til að auka fjölda áskrifenda við ritstjóraskiptin en það mun ekki skila miklu. Tími pappírsfjölmiðla fjarar sífellt meira út og tími stórblaða er liðinn.“
Völvan segir fólksflótta halda áfram frá RÚV. Menn hafi nú gefist upp á því að vænta þess að gerðar verði þær breytingar á stofnuninni sem lofað hefur verið í ár og áratugi, ríkisstjórn fram af ríkisstjórn. Hóflegar væntingar séu gerðar til nýrrar ríkisstjórnar vegna þessa.
Blaðamaður spyr völvuna hvernig horfur séu utan landsteinanna.
„Valdataka Trumps í Bandaríkjunum þann 20. janúar veldur mikilli óvissu og spennu. Hann mun sem betur fer ekki framkvæma allt sem hann lofaði, eða öllu heldur hótaði, fyrir kosningar, enda er tregðulögmálið sterkt í bandaríska stjórnkerfinu. Engu að síður mun hann lýsa því yfir að hann ætli að stilla til friðar í Úkraínu og taka í verkið einn dag. Hann mun leggja til að stríðandi fylkingar leggi niður vopn og semji um frið þannig að Rússar haldi þeim landshlutum sem þeir hafi þegar náð á sitt vald. Þeirri hugmynd verður hafnað samstundis þannig að ekkert verður af vopnahléi. Trump mun hins vegar valda miklum vandræðum víða um heim með tollastríði við Kína, Indland, Mexíkó og Kanada. Hann mun fara hægar af stað gagnvart Evrópu,“ segir völvan og lítur hugsi á blaðamann.
Hún segir Rússland vera á barmi efnahagshruns. Pútín muni neyðast til að hætta stríðsrekstri á árinu vegna þess. Þannig ljúki Úkraínustríðinu.
„Trump mun valda erfiðleikum í NATO með hótunum en önnur ríki innan bandalagsins munu taka á sig meiri útgjöld til að viðhalda styrk sambandsins,“ segir völvan og bætir því við að ESB muni stórlega auka varnarsamstarf sitt á árinu og komandi árum í ljósi þess að ekki sé framar treystandi á samstöðu Bandaríkjanna eins og verið hafi langt fram á þessa öld.
Þá segir völvan að umræða um gervigreind muni setja mikinn svip sinn á næsta ár.
„Gervigreindin er að taka yfir á ógnarhraða og mun ýta undir nýjungar og framfarir í iðnaði. Það verða miklir vaxtaverkir við þessar breytingar, störfum fækkar í mörgum geirum og breytast. Þetta mun valda tímabundinni ólgu og svo verða einhver vandræði sem þessu fylgja þegar óprúttnir aðilar nýta sér þessa tækni til ills. Sérstaklega verður mikil aukning í hverskonar svikum á netinu með þessari tækni og umræða um það verður áberandi. Heilt yfir munu þessar tæknibreytingar þó verða til góðs fremur en ills.“
„Viltu Baileys?,“ spyr völvan skyndilega og geispar létt. Blaðamaður afþakkar pent og sér að þarna er komið skýrt merki um að láta staðar numið. Hann þakkar fyrir sig, stendur upp og tekur bollann með sér og er feginn að ná að skvetta úr honum óséður í eldhúsvaskinn. Svo kveður hann völvuna með virktum og heldur út í jólanóttina.