Bifhjólasamtök lýðveldisins, BLS eða Sniglarnir, safna nú dósum til þess að fylla í holur á vegum landsins. Einnig til að vekja athygli á slæmu ástandi og ónógu viðhaldi vega sem skapi slysahættu.
Verkefnið heitir Veginn heilan heim og er unnið í samstarfi við Endurvinnsluna. Fólki er bent á að það geti komið með dósir og gler til Endurvinnslunnar og láta vita að ágóðinn eigi að fara í vegakerfið.
„Hver króna rennur til Vegagerðirnar óskipt án þess að lenda fyrst í ríkiskassanum, við vitum hvað gerist þar,“ segir í tilkynningu BLS.
Segir að átakið sé til að minna á þá sorglegu staðreynd að vegna fjárskorts séu vandamál með að sinna þjóðvegunum. Viðhaldsskuldin sé tæplega 150 milljarðar króna.
Kristrún Tryggvadóttir, fulltrúi BLS hjá Evrópusamtökunum FEMA sagði á fréttavef þeirra að Íslendingar væru orðnir vanir því að skatta af bílum og bifhjólum fari í sífellt minna mæli í að bæta vegakerfið.
„Áætluð fjárframlög til vegamála á næsta ári eru 27 milljarðar króna en stærstur hlutinn er frátekinn í stór og dýr verkefni og undirbúning þeirra,“ sagði Kristrún. „Aðeins tíundi hlutinn er notaður til að viðhalda vegunum sem eru þegar til.“
Með verkefninu Veginn heilan heim vonast meðlimir BLS til að stjórnvöld stígi inn og setji meira fjármagn „svo vegirnir okkar verði öruggir og allir komist heilir heim,“ eins og segir í tilkynningunni.
Einnig sé hægt að leggja verkefninu lið með því að leggja inn á:
Kt: 4706911909
Reikn: 0515-14-9577