Fyrir skammri stund var tilkynnt um að bíll hefði farið í sjóinn við Reykjavíkurhöfn. RÚV greinir frá þessu. Í fréttinni segir:
„Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu er með viðbúnað við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn en tilkynnt var um bíl sem fór í höfnina.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu gat ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu.“
Mbl.is greinir frá því að mikill viðbúnaður sé á svæðinu: Um sex sjúkrabílar, tveir slökkviliðsbílar og töluverður fjöldi lögreglubíla eru við höfnina. Einnig eru tveir björgunarbátar á svæðinu. Búið er að loka hafnarsvæðinu að sögn sjónarvotts.
Mbl.is greinir frá því að búið sé að sækja einn úr bílnum. Var hann fluttur á sjúkrahús. Verið er að ganga úr skugga um hvort fleiri hafi verið í bílnum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu um málið:
„Á öðrum tímanum eftir hádegi í dag var tilkynnt um bifreið sem hafði farið út af bryggjunni á Ægisgarði í Reykjavík og í höfnina. Fjölmennt lið viðbragðsaðila var strax kallað á vettvang, en rannsókn málsins er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.“