Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, gagnrýnir ógagnsæi í hækkunum fasteignagjalda á Akranesi og telur ljóst að sveitarfélagið ætli að varpa öllum sínum fjárhagsvanda á herðar heimila, launafólks og fyrirtækja. Vilhjálmur vekur athygli á málinu á Facebook þar sem hann bendir á að töluverðar hækkanir séu fram undan.
„Fasteignagjöld hækka umtalsvert á komandi ári hjá Akraneskaupstað og sem dæmi þá hækka fasteignagjöld hjá þeim sem búa í fjölbýlishúsum um 17,6% eða sem nemur um 3.000 króna hækkun á mánuði.
Hjá þeim sem búa í raðhúsum eru fasteignagjöld að hækka um 11,56% og hjá þeim sem búa í einbýli um 12,06%. Stór hluti af þessari hækkun er tilkominn vegna breytinga á álagsprósentu fasteignagjalda enda er þessi hækkun umtalsvert yfir árlegri hækkun á fasteignamati.
Gjaldskrár sem tengjast barnafjölskyldum hækka um 3,5% en fjölmargar gjaldskrár hækka hins vegar um 5,6%.“
Vilhjálmur segist hafa heimildir fyrir því að fasteignagjöld á fyrirtæki muni hækka allt að 25%. „Það er eins og alltaf að öllum vanda er miskunnarlaust varpað á herðar heimilanna, launafólks og fyrirtækja.“
Hann bendir sérstaklega á að mikið ógagnsæi ríki um þessar hækkanir og að hans mati ber sveitarstjórnum skylda til að kynna hækkanir sem þessar sérstaklega fremur en að fela þær.
„Það ber þó að geta þess að ógegnsæið í þessum hækkunum er umtalsvert og mér finnst að bæjaryfirvöldum beri skylda til að auka gegnsæið í auknum álögum á bæjarbúa en hafi ekki þessar hækkanir í felubúningi til að íbúar átti sig á hinum ýmsu hækkunum.“