Þrír karlmann hafa setið í gæsluvarðhaldi stóran hluta af haustinu vegna stórfellds fíkniefnabrots. Málið er rakið til þess að lögreglan fann gífurlegt magn af MDMA-kristöllum í skrifstofuhúsnæði í Reykjavík í lok september, alls tæplega 3 kg.
Gæsluvarðhald yfir þremur mönnum sem viðriðnir eru málið hefur nú verið framlengt til 20. janúar. Gæsluvarðhaldsúrskurðirnir voru birtir á vef Landsréttar í morgun.
Fíkniefnin voru falin í lofti skrifstofuhúsnæðis og skipti lögregla efnunum út fyrir gerviefni. Lögregla kom einnig fyrir upptökubúnaði til að fylgjast með efnunum. Að kvöldi 2. október sást á myndbandsupptöku að hinir þrír kærðu í málinu sóttu fíkniefnin og óku á brott með þau. Lögregla stöðvaði för bílsins og gerði upptæk tæp 3 kg af MDMA kristöllum og 1781 stykki af MDMA töflum.
Gerð var húsleit hjá mönnunum og á heimili eins þeirra fannst umtalsvert magn fíkniefna.
Ákæra hefur nú verið gefin út á hendur mönnunum fyrir stórfellt fíkniefnabrot en þeir verða í gæsluvarðhaldi, sem fyrr segir, til 20. janúar, hið minnsta.