250 undirskriftir hafa safnast gegn fyrirhugaðri byggingu smáhýsa og ferðamannamiðstöðvar í Gaukstaðalandi í Garði. Fjöldi nágranna hafa lýst áhyggjum sínum í athugasemdum til skipulagsráðs og Veðurstofan varar við flóðahættu á svæðinu.
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti þann 2. október síðastliðinn að auglýsa deiliskipulagstillögu þar sem gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á jörð Gauksstaða, við ströndina í Garði. Fyrirhugað er að reisa 15 ferðaþjónustuhús og 300 fermetra þjónustubyggingu eftir ströndinni. Heildarbyggingarmagnið er allt að 1050 fermetrar.
Svæðið er við íbúðahverfi í Garði og finnst mörgum nágrönnum starfsemi sem þessi ekki eiga heima á svæðinu. Það er líka ekki aðeins byggingarmagnið sem íbúarnir eru ósáttir við heldur einnig hæðin á húsunum. En þar sem byggingarnar eru niður við sjávarmál þarf að byggja fimm metra undir þær.
„Þetta verður um átta metra hátt, eins og þriggja hæða blokk. Þetta lokar fyrir útsýni fyrir nágrannana,“ segir Freyr Gunnarsson, einn nágrannana sem hafa mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.
Á staðnum er gamall einbreiður sveitavegur þar sem er ekki einu sinni gangstétt. Óttast íbúar að umferð aukist. En þarna rétt hjá er einnig leikskóli sem íbúarnir hafa áhyggjur af að verði fyrir ónæði og missi útsýni.
Í athugasemdum til bæjarins hafa íbúar meðal annars lýst áhyggjum af því að ónæði verði af starfseminni allan sólarhringinn, að börn verði í hættu út af vöruflutningum, að dýralíf og sveitamenning staðarins verði undir og að verðmæti og eftirspurn eftir húseignum rýrist.
En íbúarnir eru ekki þeir einu sem hafa sent inn athugasemdir. Veðurstofa Íslands bendir á flóðahættu á staðnum sem muni einungis versna á þessari öld og næstu vegna loftslagsbreytinga.
„Mikilvægt er að við alla skipulagsgerð sé aðgát höfð og hugað að því hvernig bregðast megi við sjávarstöðubreytingum ef þær skyldu geta valdið vandræðum á þeim svæðum sem verið er að skipuleggja,“ segir í athugasemd Veðurstofunnar. Einnig að deiliskipulagskortið sé ekki nógu ítarlegt til að hægt sé að meta landhæðina, það er hvort fimm metra gólfkóti dugi í öllum tilvikum.
Deiliskipulagið er aðeins ein síða. Er það meðal þess sem Freyr gagnrýnir. Það er að ekki séu til almennilegar myndir af því hvernig byggingarnar muni líta út. Óttast hann að verið sé að villa um fyrir fólki. Rétt eins og nýlegt skipulagsslys í Árskógum í Breiðholti þar sem íbúar í fjölbýlishúsi fengu grænt ferlíki sem nágranna.
Annað atriði er fráveita. En í deiliskipulaginu segir aðeins að fráveita ferðamannakjarnans muni tengjast inn á fráveitukerfi sveitarfélagsins.
Umhverfisstofnun bendir hins vegar á í sinni athugasemd við framkvæmdina að Garður uppfylli ekki reglugerðir hvað varðar fráveitur og skólp. Það er kröfur um hreinsun og úr því þurfi að bæta með tímasettum áætlunum. Þá bendir Umhverfisstofnun á að sýna þurfi gönguleið með fram ströndinni í deiliskipulagi.
Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður framkvæmda- og skipulagsráðs, sagði að það væri ekki tímabært að tjá sig um gagnrýni íbúanna að svo stöddu. Málið væri enn þá í auglýsingaferli. Hægt sé að skila inn athugasemdum fram til morgundagsins.
Aðspurður um hvenær ákvarðanir verði teknar um deiliskipulagstillöguna segir hann að hún verði tekin fyrir á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs seinni hlutann í janúar mánuði.
Undirskriftirnar gegn framkvæmdinni voru afhentar á bæjarskrifstofunni í dag. Freyr segir að íbúarnir krefjist þess að fá fund strax á nýju ári með allri bæjarstjórninni áður en framkvæmda- og skipulagsráð fjallar um málið.