Í Lögbirtingablaðinu í dag eru birtar þrjár mismunandi stefnur Reykjavíkurborgar á hendur fasteignaeigendum vegna vangoldinna fasteignagjalda. Í öllum tilfellum er um að ræða einstaklinga með erlend nöfn sem eru með íslenskar kenntitölur en samkvæmt stefnunum er enginn þeirra skráður með lögheimili á landinu. Tveir þeirra hafa raunar aldrei verið með lögheimili hér á landi og því væntanlega ekki með íslenskt ríkisfang en samkvæmt Þjóðskrá er þriðji einstaklingurinn með lögheimili í „útlöndum“.
Í fyrsta tilfellinu er um að ræða íbúð í miðborginni en þinglýstur eigandi er karlmaður á fertugsaldri sem samkvæmt stefnunni hefur aldrei verið skráður með lögheimili hér á landi og ekki virðist vitað í hvaða landi hann býr. Skuldar maðurinn borginni fasteignagjöld fyrir tímabilið júní til desember 2023, alls um 87.000 krónur. Þar að auki krefst borgin dráttarvaxta, greiðslu innheimtukostnaðar og staðfestingar á lögveðsrétti í íbúðinni sem væntanlega er undanfari þess að farið verði fram á nauðungaruppboð, greiði maðurinn ekki skuldina.
Samkvæmt fasteignaskrá er íbúðin 100 fermetrar að stærð og en fasteignamat hennar fyrir árið 2025 verður 73,7 milljónir króna.
Í stefnunni kemur fram að reynt hafi verið að innheimta skuldina en án árangurs og því sé farin sú leið að birta stefnuna í Lögbirtingablaðinu.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í lok janúar næstkomandi og í stefnunni er skorað á manninn að mæta þá fyrir dóminn eða greiða skuldina áður en til þingfestingarinnar kemur.
Í öðru tilfellinu er um að ræða karlmann sem er einnig á fertugsaldri. Samkvæmt stefnu borgarinnar á hendur honum hefur hann heldur aldrei átt lögheimili á Íslandi en honum hafði verið veitt leyfi til setu í óskiptu dánarbúi konu sem þinglýst hefur verið á íbúð í Breiðholti, sem eignarheimild mannsins.
Um er að ræða íbúð sem er um 70 fermetrar og er fasteignamat hennar fyrir árið 2025 er um 46 og hálf milljón króna.
Í þessu tilfelli er ekki um að ræða jafn mikla skuld og í fyrsta tilfellinu en fasteignagjöld vegna desember 2023 hafa ekki verið greidd. Alls nemur skuldin rétt yfir 12.000 krónum en eins og í fyrsta tilfellinu krefst Reykjavíkurborg þar að auki dráttarvaxta og greiðslu kostnaðar við innheimtu auk staðfestingar á lögveðsrétti í íbúðinni.
Mál mannsins verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á sama tíma og málið sem varðar fyrsta tilfellið.
Þriðja og síðasta stefnan er á hendur konu á fimmtugsaldri. Ekki er tekið fram í stefnunni á hendur henni að hún hafi aldrei verið með lögheimili á Íslandi og því ekki óhugsandi að um íslenskan ríkisborgara sé að ræða. Hún er samkvæmt Þjóðskrá skráð til heimilis í „útlöndum.“ Það virðist því ekki vera vitað eins í tilfellum karlmannanna hvar í heiminum konan býr að staðaldri.
Samkvæmt stefnunni á hendur hennni er hún þinglýstur eigandi tveggja fasteigna sem báðar tilheyra sama fjölbýlishúsinu í Langholtshverfi. Önnur eignin er 50 fermetra geymsla sem metin er á komandi ári á um 13 og hálfa milljón króna.
Hin eignin er íbúð sem er örlítið stærri en geymslan en fasteignamat íbúðarinnar fyrir árið 2025 er um 44 milljónir króna.
Konan hefur samkvæmt stefnunni ekki greitt fasteignagjöld af báðum eignunum fyrir tímabílið október til desember 2023. Alls er skuldin um 41.000 krónur en eins og í hinum tilfellunum tveimur krefst borgin þar að auki dráttarvaxta auk greiðslu innheimtukostnaðar og staðfestingar á lögveðsrétti í báðum eignum.
Mál konunnar verður þingfest á sama tíma og mál karlmannanna tveggja, greiði hún ekki skuldina í millitíðinni.
Hvort þessir þrír fasteignaeigendur sem ekki eru skráðir með lögheimili á landinu séu fyllilega meðvitaðir um skuldir sínar við Reykjavíkurborg er óljóst á þessari stundu.