Jón Sigurgeirsson, sem titlar sig aldraðan lögfræðing, hefur svarað umdeildri grein sem Snorri Másson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, birti skömmu fyrir jól.
Í grein sinni gagnrýndi Snorri kæru Samtakanna 78 á hendi Eldi S. Kristinssyni fyrir hatursorðræðu, en Eldur er þekktur fyrir umdeildar skoðanir um málefni trans fólks. Í grein sinni gagnrýndi Snorri að samtök sem þiggja fjármagn frá ríkinu skuli lögsækja frambjóðanda (Eldur var í framboði fyrir Lýðræðisflokkinn fyrir síðustu kosningar) fyrir að aðhyllast aðra hugmyndafræði en þau. Sagði Snorri að ef félagasamtök, sem reiða sig alfarið á ríkisvaldið og séu þar með í vissum skilningi orðin hluti þess, gerist stórtæk í ritskoðun á samfélagsmiðlum séum við komin út á hálan ís.
„Sama hvort mönnum líkar það betur eða verr hefur fólk rétt til þess að tjá sig um grundvallarþætti í heimsmynd sinni, eins og að karlar geti ekki fætt börn. Þar á fólk ekki að venjast því að hinn eða þessi armur ríkisvaldsins sigi á það lögreglu fyrir skoðun, sem hefur vel að merkja ekki verið umdeild þar til á allra síðustu árum.”
Snorri undirstrikaði mikilvægi tjáningarfrelsisins en benti á að í nútímanum væru fólgnar ísmeygilegar leiðir til að grafa undan því:
„Í því ljósi þarf greinilega að árétta að sannleikurinn verður ekki til hjá ríkisvaldinu og það er ekki hlutverk þess að framfylgja honum. Það er síðan annar misskilningur að stuðlað verði að félagslegum framförum með því að neyða fólk með lögregluvaldi til að samþykkja hugmyndir sem misbjóða skynsemi þess og lífssýn. Slíkt kerfi hefur aldrei gefið góða raun.“
Jón Sigurgeirsson birtir andmælagrein gegn Snorra í Morgunblaðinu í dag. Segir hann að Snorri haldi því fram að málfrelsi feli í sér rétt til ofbeldis. Hann segir síðan:
„Nei, Snorri. Frelsið takmarkast við það að óheimilt er að ganga á rétt annarra til frelsis. Ég hef ekki heimild til að kalla þig ónefnum svo sem vændissala af því ég hef ekkert sem einu sinni gefur tilefni til þess, hvað þá heldur sannanir.“
Segir Jón að það sé kjarninn í vestrænum frelsishugmyndum að fólk megi skilgreina sig sjálft og það sé aumingjaskapur að ráðast á minnimáttar:
„Einstaklingur með leg sem upplifir sig sem eitthvað annað en konu hefur rétt á að vera það meðan viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Það er kjarninn í vestrænum frelsishugmyndum. Frelsið er ekki eingöngu fyrir menn sem falla að reglustiku meðalmennskunnar heldur einnig hina sem skera sig úr.
Ég hef alltaf talið þá aumingja sem ráðast á minni máttar. Jaðarsettir hópar eru minnimáttar og rétt að veita þeim aðhald sem á þá ráðast.
Það er ekki skoðun að halda því fram að einstaklingur með leg geti ekki talið sig vera annað en kona. Það er ekki heldur staðreynd því viðkomandi þekkir ekki hvernig tilfinningin – fyrir hvers kyns viðkomandi er – mótast. Hún er ekki lærð. Hún breytist ekki vegna árása öfgamanna sem hafa enga ástæðu fyrir fullyrðingum sínum aðra en ofbeldishneigð.“