Á vef Landbúnaðarháskólans kemur fram að Jón Hjalti Eiríksson, Þóroddur Sveinsson og Jóhannes Sveinbjörnsson frá deild Ræktunar og fæðu ásamt Daða Má Kristóferssyni frá Háskóla Íslands og Julie Clasen frá SimHerd A/S í Danmörku hafi síðustu mánuði unnið að mati á mögulegri hagræðingu í mjólkurframleiðslu á Íslandi með innflutningi á nýjum mjólkurkúakynjum.
Bent er á það að íslenskar mjólkurkýr hafi minni meðalafurðir en helstu mjólkurframleiðslukyn nágrannalandanna og því hafi ítrekað verið stungið upp á innflutning annars kúakyns sem leið til að gera kúabúskap á Íslandi hagkvæmari.
„Í þessu verkefni voru íslenskar kýr bornar saman við norskar rauðar kýr (NRF), norrænar (sænskar/danskar) rauðar kýr, norrænar Holstein kýr og Jersey kýr. Niðurstöðurnar benda til að framlegð kúabúskapar í landinu gæti aukist um 3,3 milljarða á ári ef öllum kúnum væri skipt út fyrir norrænar rauðar kýr og litlu minna ef Holstein eða NRF kýr yrðu fyrir valinu. Til að ná þessari hagræðingu myndi kúm í landinu fækka um nálægt tíu þúsund á meðan framleiðslunni væri haldið svipaðri,“ segir á vef Landbúnaðarháskólans.
Fram kemur í umfjöllun Landbúnaðarháskólans að íslenski mjólkurkúastofninn sé lítið skyldur öðrum mjólkurframleiðslukynjum og hafi því mikið gildi fyrir varðveislu erfðaauðlinda nautgripa. Ef annað kúakyn taki yfir mjólkurframleiðslu á Íslandi þurfi að tryggja varðveislu óblandaðra gripa af íslenska kyninu.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Rafn Bergsson, bónda á Stóru-Hildisey og formann deildar nautgripabænda, sem segir að þetta sé ágætis innlegg í umræðuna og eðlilegt að bændur skoði þessa möguleika til að bæta afkomuna. Það þurfi þó að stíga varlega til jarðar.
„Það eru heilmikil verðmæti fólgin í okkar íslenska kúakyni, sem er búið að vera hér einangrað í nokkur hundruð ár. En það er ekki hægt að líta framhjá því að önnur kúakyn eru afkastameiri og því alveg eðlilegt að skoða alla möguleika,“ segir hann við Morgunblaðið.