Hún segir að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld en að því miður sé ekki rekstrargrundvöllur fyrir því að halda miðlinum gangandi.
Margrét greindi frá tíðindunum í pistli á Facebook og sagði að síðan verði áfram opin öðrum til fróðleiks.
„Kæru vinir, hef ákveðið að snúa mér að öðrum verkefnum þar sem kraftar mínir eru betur nýttir og metnir. Því miður er ekki rekstrargrundvöllur fyrir því að halda Fréttinni gangandi og erum búin að leita allra leiða í þeim efnum. Það er sárt að þurfa yfirgefa miðil sem gengur í raun vel og fær þúsundir heimsókna á dag. Við þurfum að lágmarki 300 áskrifendur svo að dæmið gangi upp en það vantar töluvert upp á það.
Þakka öllum fyrir frábærar móttökur og því góða fólki sem ég hef kynnst og starfað með á þessum rúmu þremur árum, hefur verið mjög viðburðaríkt og fært mér dýrmæta reynslu.
Aðsendar greinar halda áfram í einhverju magni og verður síðan opin öðrum til fróðleiks.
Á þessum 3 árum og 3 mánuðum hafa verið skrifaðar um 7200 greinar, sem er magnað.
Takk fyrir ykkur öll Gleðileg jól og Guð blessi ykkur.“
Í ágúst auglýsti Margrét Fréttina til sölu en það virðist ekki hafa gengið.
„Fréttin er til sölu fyrir rétta aðila. Vegna þess að Fréttin á alls ekki að snúast um mig, Margréti Friðriksdóttur. Hún á að standa fyrir lýðræðinu, tjáningarfrelsinu, sýna fleiri hliðar og bara eins og ég segi, standa með sannleikanum og vera aðhald fyrir aðra fjölmiðla, yfirvöld sem eru í þessu narratífi,“ sagði hún í Norræn Karlmennska í ágúst.
„Ég er að fara að mestu út úr Fréttinni og er að fara í annað verkefni sem er mjög spennandi og ég er bara mjög spennt fyrir og hlakka mikið til, sem er allt annað en fjölmiðlar.“
Sjá einnig: Magga Frikka auglýsir Fréttina til sölu – „Ég er náttúrulega frumkvöðull fyrst og fremst“