Flokkur fólksins vann ákveðinn sigur í kosningunum á laugardag og fékk 13,8% atkvæða og tíu þingmenn kjörna. Bendir margt til þess að flokkurinn muni fara í ríkisstjórn með Samfylkingu og Viðreisn.
Í grein sinni segir Inga að fyrir tæpum níu árum, skömmu áður en hún stofnaði Flokk fólksins, hafi hún heyrt af þá nýútkominni skýrslu Unicef á Íslandi um fátækt barna.
„Þar kom fram að 9,1% barnanna okkar leið mismikinn skort. Ég varð gjörsamlega miður mín og ég hét því þá að ég myndi gera allt sem í mínu valdi stæði til að útrýma þessari óafsakanlegu fátækt í okkar ríka landi. Í kjölfarið stofnaði ég Flokk fólksins.“
Inga bendir á að flokkurinn hafi nú gengið í gegnum fernar alþingiskosningar og ávallt bætt við sig töluverðu fylgi milli kosninga.
„Það má með sanni segja að Flokkur fólksins sé einn helsti sigurvegari nýgenginna kosninga enda bætti hann við sig fjórum þingmönnum,“ segir Inga sem gerir skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna einnig að umtalsefni í grein sinni.
„Enn einu sinni skilaði niðurstaða kosninga meira kjörfylgi til Flokks fólksins en nokkur skoðanakönnun hafði spáð, en hæst fengum við spá um 13,1% fylgi í óbirtri könnun Gallup, sem RÚV greindi frá hinn 22. nóvember. Niðurstaða kosninganna var að 13,8% allra greiddra atkvæða tilheyrðu Flokki fólksins.“
Inga kveðst trúa því að nú verði raunverulegar breytingar og bjartari tímar fram undan fyrir alla þá sem eiga um sárt að binda.
„Fyrir börnin okkar og fjölskyldurnar sem glíma við fátækt og fyrir þá sem eru á biðlistum eftir hjálp. Við búum í ríku landi þar sem öllum á að líða vel. Það er í höndum okkar stjórnmálamanna að jafna kjörin og koma í veg fyrir að nokkur þurfi að líða skort.“
Inga er þakklát fyrir þær kveðjur sem hún hefur fengið meðan á kosningabaráttunni stóð og ekki síður eftir að talið var upp úr kjörkössunum.
„Sólin sem skærast skín í lok dags er kærleikur ykkar og traustið sem þið hafið sýnt Flokki fólksins með því að gefa honum ykkar dýrmæta atkvæði. Það er mín bjargfasta trú að við séum að fara að eignast réttláta hreinlynda ríkisstjórn sem tekur utan um samfélagið okkar í heild sinni af umhyggju og alúð.“