fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fréttir

Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi óskuðu eftir endurtalningu – Kjörstjórn telur sig ekki bæra til að fjalla um erindið

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 3. desember 2024 11:00

Þegar lokatölur voru kynntar komst Sigurður Ingi inn á þing á kostnað Willums Þórs.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Beiðni um endurtalningu atkvæða í Suðvesturkjördæmi kom frá Framsóknarmönnum í kjördæminu. Litlu munaði að oddviti þeirra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, næði inn á þing. Willum datt út eftir að lokatölur voru kynntar og formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson komst inn. Sigurður segir mikilvægt að leikreglum lýðræðisins sé fylgt.

Greint var frá því í fréttum í gær að óskað hefði verið eftir endurtalningu í Suðvesturkjördæmi en ekki frá hverjum sú ósk hefði komið. Formaður kjörstjórnar, Gestur Svavarsson, hefur ekki viljað greina frá því.

Samkvæmt heimildum DV kemur beiðnin frá kjördæmasambandi Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þar á bæ eru menn svekktir yfir því að oddvitinn Willum Þór Þórsson hefði fallið af þingi, jafn vel þó að það hafi þýtt að formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson kæmist inn. Talning gekk hægt í kjördæminu og lokatölur lágu ekki fyrir fyrr en um miðjan dag á sunnudag, og voru eins og margir muna kynntar á meðan Sigurður sat í leiðtogaumræðum á RÚV.

Undirbúningsnefnd má láta endurtelja

Í ljósi nýrra þingskapalaga telur kjörstjórn sig ekki bæra til þess að taka af skarið um endurtalningu eða hafna henni.

„Við erum búin að svara erindinu til beiðenda. Í svarinu kemur fram að við erum ekki til þess bær að fjalla um þetta,“ segir Gestur. „Það voru samþykkt ný þingskaparlög á seinustu dögum þingsins þar sem kemur fram að undirbúningsnefnd sem hefur heimild til að óska eftir endurtalningu. Hin lögformlega leið er þar. Við höfum í sjálfu sér ekki slagkraft til þess að hafna þessu eða samþykkja.“

Gestur segir að kjörstjórn geti ekki sagt af eða á með endurtalningu.

Um er að ræða breytingu á 3. málsgrein 1. greinar laganna þar sem segir að forseti skuli, áður en nýtt þing kemur saman, kveðja saman nefnd níu kjörinna alþingismanna til að undirbúa rannsókn. Nefndin skal skipuð fulltrúum í hlutfalli við þingstyrk flokka. Í greininni segir:

„Við rannsóknina er undirbúningsnefndinni m.a. heimilt að kalla eftir upplýsingum frá stjórnvöldum, óska eftir að þau taki saman upplýsingar og boða þau á fund sinn, enn fremur að boða aðra aðila á sinn fund, leita sér sérfræðiaðstoðar, fara í vettvangsrannsóknir, rannsaka kjörgögn til að sannreyna úrslit kosninga, þ.m.t. telja atkvæði, eða óska eftir að kjörstjórnir geri það.“

Mikilvægt að leikreglum sé fylgt

Fari svo að talið verði að nýju er ólíklegt að Framsóknarflokkurinn bæti við sig þingsæti. Líklegra er að ef einhver skekkja hafi verið í talningu þá hafi leiðrétting þau áhrif að jöfnunarmannahringekjan fari aftur af stað og eins og Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi vonast eftir, að Willum endi á þingi. En eins og áður segir myndi það líklegast þýða að formaðurinn væri úti.

„Í leikreglum lýðræðisins þá er eðlilegt að þeim sé fylgt. Ef það er einhver sem óskar eftir endurtalningu þá er það gert. Það er mikilvægt að allir upplifi að öllum reglum sé fylgt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Aðspurður um hvernig honum litist á það ef Willum kæmist inn á hans eigin kostnað í endurtalningu vísar Sigurður aftur í fyrra svar. „Ef það eru réttar niðurstöður þá eru það réttar niðurstöður,“ segir hann.

Misstu alla á mölinni

Alþingiskosningarnar voru mikið reiðarslag fyrir Framsóknarflokkinn á höfuðborgarsvæðinu. Flokkurinn, sem hefur ávallt haft sterkari stöðu á landsbyggðinni, hafði í síðustu alþingis og sveitarstjórnarkosningum komið sér upp vígi á höfuðborgarsvæðinu. Ekki nóg með að þrír ráðherrar flokksins kæmu af höfuðborgarsvæðinu, þá á flokkurinn borgarstjóra Reykjavíkur, verðandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar og er í meirihluta í Mosfellsbæ og Kópavogi.

Um helgina missti flokkurinn alla þingmenn sína á höfuðborgarsvæðinu og er orðinn hreinn landsbyggðarflokkur á þingi. Sigurður Ingi segir það miður.

„Við hefðum þurft svona eitt prósent í viðbót í öllum kjördæmum. Þá hefðum við fengið menn inn í öllum kjördæmum,“ segir hann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Baldri tókst að skjóta föður sínum ref fyrir rass og kom sér rækilega á kortið

Baldri tókst að skjóta föður sínum ref fyrir rass og kom sér rækilega á kortið
Fréttir
Í gær

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“