fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fréttir

Arfurinn sem hún fékk á barnsaldri reyndist dýrkeyptur á fullorðinsárunum

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 3. desember 2024 14:30

Fasteignaviðskipti eru viðkvæm. Þessi mynd frá Getty tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirskattanefnd hefur staðfest úrskurð ónefnds sýslumannsembættis vegna máls konu sem synjað var um 50 prósent afslátt af stimpilgjaldi vegna fyrstu íbúðarkaupa. Var það gert á grundvelli þess að konan væri þegar eigandi að íbúðarhúsnæði en um er að ræða smávægilegan hlut í húsnæði, sem hún fékk í arf á barnsaldri og er aðeins um 45.000 króna virði.

Samkvæmt lögum um stimpilgjald eiga þau sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn rétt á helmingsafslætti af gjaldinu.

Konan sagði í kæru sinni að hún væri einn af 28 þinglýstum eigendum húsnæðis og væri hennar hlutur 0,89 prósent. Þennan hlut hafi hún fengið í arf. Umrætt húsnæði sé, samkvæmt fasteignamati, metið á um 5 milljónir króna og verðmæti hennar hlutar sé því um 45.000 krónur. Ljóst sé að það sé undir fjárhæð helmingsafsláttar af stimpilgjaldi.

Konan sagði ljóst að þessi ákvörðun gengi í berhögg við markmið löggjafans með þessu ákvæði sem sé að auðvelda fyrstu íbúðarkaupendum að komast inn á fasteignamarkaðinn. Sagði konan í sinni kæru að augljóslega sé ekki hægt að líta á svo lítinn eignarhlut sem fyrstu eign sem hagnýta megi með einhverjum hætti. Með synjun sýslumanns sé jafnræði fyrstu kaupenda þannig ekki gætt sem gangi í berhögg við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Há upphæð undir

Sagði sýslumaður í sínum andsvörum að í lögum um stimpilgjald kæmu engin skilyrði fram um að viðkomandi verði að eiga tiltekna prósentu í fasteign til að glata rétti sínum til afsláttar af stimpilgjaldi. Það sé nægilegt að hafa áður verið þinglýstur eigandi að húsnæði. Auk 0,89 prósent eignarhlutar í húsnæðinu sé konan þinglýstur eigandi að 0,74 prósent hlut í jörðinni sem eignin stendur á. Því sé ekki hægt að fallast á að hún eigi rétt á helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu íbúðarkaupa.

Í úrskurðinum er rifjað upp að samkvæmt lögum er stimpilgjald 0,8 prósent, ef kaupandi er einstaklingur, af gjaldskyldum skjölum sem varða eignaryfirfærslu á fasteignum. Er hlutfallið þá miðað við matsverð fasteignar eins og það er skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast.

Upphæð stimpilgjalds getur því verið misjöfn eftir þeirri upphæð sem undir er í viðkomandi fasteignaviðskiptum en í mörgum tilfellum nemur það að minnsta kosti nokkur hundruð þúsund krónum á hvert skjal.

Prósentur skipti engu máli

Í úrskurði Yfirskattanefndar er vitnað í lög um stimpilgjald þar sem segi að skilyrði fyrir veitingu helmingsafsláttar af gjaldinu sé að að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti.

Einnig er vísað í athugasemd með frumvarpi til breytinga á lögunum, sem var samþykkt 2020, þar sem þessu ákvæði var bætt við lögin að það felist í því að það skipti jafnframt ekki máli hvort kaupandinn hafi hagnýtt sér íbúðarhúsnæðið sem hann hafi áður verið þinglýstur eigandi að í eigin þágu eða á nokkurn annan hátt.

Nefndin segir því liggja fyrir að það hafi enga þýðingu hversu smár hlutur viðkomandi í því húsnæði, sem einstaklingurinn hefur verið þinglýstur eigandi að, hafi verið. Eldra skilyrði um að hluturinn yrði að vera að minnsta kosti 50 prósent til að réttur til afsláttar af stimpilgjaldi vegna fyrstu íbúðarkaupa félli niður hafi verið fellt burt úr lögunum við lagabreytinguna 2020.

Þar af leiðandi var úrskurður sýslumanns um að konan eigi ekki rétt á afslættinum af stimpilgjaldinu vegna fyrstu íbúðarkaupa staðfestur. Arfurinn sem konan fékk á barnsaldri og eins og áður segir er um 45.000 króna virði reyndist henni því dýrkeyptur á fullorðinsárunum.

Uppfært 16:36

Ranglega var vitnað í lög um stimpilgjald þegar kemur að því við hvað hlutfall þess er miðað, í upprunalegri útgáfu fréttarinnar. Það hefur verið leiðrétt. Beðist er velvirðingar á þessu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Forseti Suður-Kóreu hefur lýst yfir herlögum

Forseti Suður-Kóreu hefur lýst yfir herlögum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Inga lýsir ástæðu þess að hún stofnaði Flokk fólksins – „Ég varð gjörsamlega miður mín“

Inga lýsir ástæðu þess að hún stofnaði Flokk fólksins – „Ég varð gjörsamlega miður mín“
Fréttir
Í gær

Friðrik Ómar tapaði hundruðum þúsunda með augnabliksóvarkárni – „Passið ykkur“

Friðrik Ómar tapaði hundruðum þúsunda með augnabliksóvarkárni – „Passið ykkur“
Fréttir
Í gær

Segja tálbeituaðgerðina gegn Gunnari hafa heppnast vel

Segja tálbeituaðgerðina gegn Gunnari hafa heppnast vel