Ný rannsókn virðist benda til þess að tedrykkjufólk ætti að íhuga vandlega hverskonar tepoka það notar við að neyta drykkjarins vinsæla. Vísindamenn við Autònoma-háskólann í Barcelona hafa birt rannsókn þar sem nokkrar vinsælar tegundir af tepokum eru skoðaðar og niðurstöðurnar eru á eina leið. Gríðarlegt magn af örplasti virðist fara úr pokunum og í teið sem neytendur síðan innbyrða.
Daily Mail fjallaði um málið fyrir helgi og eðli málsins samkvæmt eru Bretar uggandi enda tedrykkjan hluti af þjóðarsálinni.
Rannsóknin var framkvæmd þannig að þrjár mismunandi tegundir af tepokum voru prófaðar. Alls voru 300 pokar af hverri tegund settir ofan 600 ml af 95 gráðu heitu vatni. Eftir tiltekin tíma var teið síðan efnagreint og niðurstaðan var sú að í öllum tilvikum greindist gríðarlegt magn af örplasti í vökvanum.
Þá var einnig rannsakað hvernig líkaminn tekur við örplastinu og hvar efnið endar.
Áhrif örplasts á líkamann er eitthvað sem kastljósið beinist sífellt meira að og margt sem bendir til þess að áhrifin séu afar skaðleg. Til að mynda telja margir að örplastið auki líkur á myndun krabbameins og hafi afar neikvæð áhrif á frjósemi.