Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson hefur auglýst Brim Hótelí Skipholti til sölu og er ásett verð 1,1 milljarður króna.
Segir í tilkynningu frá Sverri Einari að tilgangurinn með sölu hótelsins sé að fjármagna fyrirhugaða uppbyggingu þrjú þúsund fermetra hótels í Þrastalundi, með alls 84 herbergjum, en á þeim sælureit hefur Sverrir Einar staðið að veitingarekstri um langt skeið.
„Þetta nýja hótel verður fyrsta flokks og mun innihalda stór og rúmgóð herbergi með stórkostlegu útsýni, þægilegu og hlýlegu umhverfi, ásamt heilsulind með heitum pottum og gufuböðum. Einnig verður að finna líkamsræktaraðstöðu, glæsilegan móttökusal með bar og léttum veitingum, ásamt góðri aðstöðu fyrir starfsfólk,“ segir í tilkynningunni.
Þá mun veitingastaðurinn Þrastalundur sjá um veitingar og morgunmat fyrir gesti hótelsins.
„Þessi ákvörðun markar spennandi skref í framtíðarsýn okkar fyrir Þrastalund. Með hótelinu munum við skapa fullkomna blöndu af lúxus og náttúruupplifun fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn.“