Norður-kóreskir hermenn sem sendir voru á vígsstöðvarnar í Úkraínu til að liðsinna Rússum hafa verið stráfelldir samkvæmt úkraínskum yfirvöldum. Hermennirnir eru sagðir hafa verið sendir fram í vonlausar árásir og hvorki Rússar né Norður-Kóreumenn skeyti um örlög þeirra.
Alls voru um 10 þúsund hermenn sendir á vígstöðvarnar frá Norður-Kóreu en fullyrt er að um eitt þúsund þeirra, eða 10% heraflans, hafi fallið í síðustu viku þegar hershöfðingjar sendu þá út í opinn dauðann.
Fyrr í vikunni sagði Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, að um 3 þúsund norður-kóreskir hermenn hefðu þegar fallið í valinn. Þeir væru sendir illa búnir í vonlausar árásir og skorti bæði vistir og vopn. Greinilegt væri að árásirnar væru skipulagðar þannig að nær ómögulegt væri að handtaka hermennina í stað þess að fella þá.
Sendi Zelensky ákall til Kínverja um að stöðva Norður-Kóreumenn í að senda fleiri hermenn á vígstöðvarnar eins og ýjað hefur verið að.
„Ef Kínverjum er alvara með að átökin breiðist ekki út þá verða þeir að beita Pyongyang þrýstingi,“ sagði Zelensky.