fbpx
Sunnudagur 29.desember 2024
Fréttir

Segir íslenskan almenning ekki ætla að borga brúsann – „Þangað til ætlum við ekkert að sturta þessu samfélagi niður“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 28. desember 2024 15:30

Albert Jónsson. Mynd: Skjáskot/Youtube.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albert Jónsson sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum starfaði um árabil sem ráðgjafi Davíðs Oddssonar, þegar hann var forsætisráðherra, í utanríkismálum og síðar sem sendiherra Íslands, meðal annars í Rússlandi. Hann er gestur nýjasta þáttar hlaðvarpsins Ein Pæling sem Þórarinn Hjartarson stýrir. Í þættinum ræðir Albert meðal annars um loftslagsmál. Hann segir að alþjóðakerfið eins og það er byggt upp í dag muni aldrei ráða við að draga markvisst úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Albert segir að Ísland eigi að nýta sér sérstöðu sína í orkumálum og að íslenskur almenningur muni aldrei sætta sig við að greiða fyrirséðan kostnað við aðgerðir í loftslagsmálum, sem hvíli á alþjóðlegum samþykktum.

Albert segir í þættinum að Ísland eigi ekki að sæta sömu ráðstöfunum í loftslagsmálum og önnur ríki í ljósi þess að um 85 prósent af orkunotkun landsins komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum:

„Við byrjum á öðrum stað en aðrir. Það er lykilatriði í því sem ég er að segja. Aðrir hafa möguleika.„Ódýra“, innan gæsalappa, sem við höfum ekki. Við þurfum bara að byrja á þessu rándýra. Hinn möguleikinn sem okkur stendur til boða er að kaupa svokallaðar loftslagsheimildir fyrir milljarða á milljarða ofan. Ætlum við að fara þá leið? Verður samkomulag um það í íslensku samfélagi. Ég held ekki.“

Hver er stefnan?

Albert segir að því hafi aldrei verið svarað hvaða áhrif staða Íslands í orkumálum hafi á stefnu landsins í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi:

„Við erum með sömu stefnu og allir aðrir … Þetta gengur ekki upp.“

Albert segir það alveg á hreinu að íslenskur almenningur muni ekki nokkurn tímann sætta sig við að greiða fyrirséðan kostnað við aðgerðir í loftslagsmálum, samkvæmt forskrift sem samþykkt hafi verið á alþjóðavettvangi:

„Leiðin út úr þessu … Ég er alveg með það á hreinu að menn ætla ekki að borga þetta, þetta sem það kostar, án þess að vita nokkuð hver árangurinn verður í framtíðinni. Meðan Kínverjar opna eitt kolaver í viku. Hvað ætlar íslenskur almenningur að borga mikla peninga? Auðvitað ætlar íslenskur almenningur ekki að borga. Auðvitað skilur venjulegur Íslendingur það að fólk sem er með 85 prósent af sínum orkubúskap í endurnýjanlegri orku á ekki að vera gera það sama og einhverjir sem eru á allt öðrum stað. Þetta er bara þannig.“

Ekki vera feimin við að grípa í taumana

Albert segir að Ísland eigi ekkert að vera feimið við að grípa í taumana og frábiðja sér alþjóðlegar aðgerðir í loftslagsmálum á meðan aðrar þjóðir séu langt á eftir Íslendingum í notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Ísland eigi hins vegar að vera tílbúið að taka þátt þegar aðrar þjóðir fari að nálgast þann stall:

„Þangað til ætlum við ekkert að sturta þessu samfélagi niður, efnahagslega. Svona vil ég að einhvern tímann verði talað um þetta. Bara til að taka þá umræðu.“

Aðspurður hvort Ísland myndi þá ekki óhjákvæmilega lenda í vandræðum á alþjóðavettvangi með því að krefjast slíkrar sérstöðu vísar Albert til undanþágu Íslands frá Kyoto-bókuninni á sínum tíma en hann átti sæti í íslensku samninganefndinni sem fékk þá undanþágu í gegn:

„Það var ekkert stórvirki að koma þessu í gegn á alþjóðavettvangi. Það skilja allir okkar stöðu. Það vita allir … Þessi almenna ímynd af Íslandi er þessi. Útlendingar sem þú hittir þeir eru allir með þetta á hreinu. Allir með það á hreinu að við erum ekki með einhverja rjúkandi kolaverastrompa og svo framvegis. Þetta er ekki erfitt mál, það er það sem ég vil segja, að afla slíkri sérstöðustefnu stuðnings á alþjóðavettvangi yrði ekki erfitt fyrir okkur. Ég er alveg með það á hreinu.“

Hvað segir stjórnarsáttmálinn?

Albert gagnrýnir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi þegar hún tók við völdum 2009 dregið þessa undanþágu frá Kyoto-bókuninni til baka:

„Málflutningurinn var einhvern veginn svona. Af því við erum með sérstöðu í orkumálum þá eigum við að gera miklu meira en aðrir. Ég hef aldrei skilið þessa hugsun. Aldrei nokkurn tímann. „Við eigum að vera í fararbroddi í heiminum í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.“ Bíddu, af hverju í andskotanum?“

Þegar kemur að stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem tók við völdum fyrir sléttri viku, í orku- og loftslagsmálum þá er hún frekar almennt orðuð í stjórnarsáttmálanum. Um orkumál segir meðal annars að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir aðgerðum til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land. Ferli leyfisveitinga verði einfaldað, tímafrestir lögbundnir og verkefni í nýtingarflokki rammaáætlunar látin njóta forgangs í stjórnsýslu orkumála.

Um loftslagsmál segir í stjórnarsáttmálanum að staðið verði fyrir markvissum loftslagsaðgerðum svo að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og verði áfram í fremstu röð í baráttu gegn hnattrænni hlýnun. Ríkisstjórnin muni ýta undir orkuskipti í samgöngum og iðnaði, vinna gegn losun frá landi og greiða götu tæknilausna og nýsköpunar á sviði loftslagsmála. Þá verði stutt við líffræðilega fjölbreytni og ráðist í aðgerðir til að vernda hafsvæði og ósnortin víðerni.

Ekkert er hins vegar minnst á kostnað við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Viðtalið við Albert Jónsson í Ein pæling er hægt að nálgast hér fyrir neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið um áramótin – Eins gott að klæða sig vel

Svona verður veðrið um áramótin – Eins gott að klæða sig vel
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna