fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Fréttir

Sakamál ársins III: Morðaldan náði hámarki og ný gögn komu fram í Geirfinnsmálinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 28. desember 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alls féllu átta manns á landinu fyrir hendi annarrar manneskju á árinu sem er að líða. Í loks sumars og fram á haustið rak hver hræðilegi atburðurinn annan.

Á Menningarnótt, þann 24. ágúst, réðst 16 ára piltur með hnífi að fjórum ungmennum sem sátu inni í bíl. Hann særði pilt og stúlku með hnífnum og lagði til Bryndísar Klöru, 17 ára stúlku, sem lést af sárum sínum.

Pilturinn hefur verið vistaður á viðeigandi stofnun allar götur frá ódæðinu en hann var ákærður seint í nóvember. Málið gegn honum var þingfest þann 28. nóvember. Hann er ákærður fyrir manndráp og gerðar eru miskabótakröfur af hálfu aðstandenda Bryndísar Klöru að fjárhæð samtals 34 milljónir króna.

Sjá einnig: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Fyrir hönd hinna ungmennanna sem urðu fyrir árás hins ákærða er krafist átta milljóna fyrir hönd hvors um sig, stúlkunnar og piltsins sem urðu fyrir hnífstungum og fimm milljóna fyrir hönd pilts sem var í bílnum er árásin var gerð, en varð ekki fyrir hnífstungum

Réttarhöld í málinu verða á fyrri hluta ársins 2025 en ekki er búið að fastsetja dagsetningu fyrir aðalmeðferð.

Hjón myrt í Neskaupstað

Þann 23. ágúst var tilkynnt um lát hjóna á Neskaupstað. Hjónin voru á áttræðisaldri og fundust látin á heimili sínu. Grunur féll á miðaldra karlmann sem ekið hafði burtu út bænum á bíl hjónanna. Maðurinn var handtekinn um nóttina. Hann hefur allar götur síðan setið í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins.

Í byrjun desember bárust fréttir um að rannsókn færi brátt að ljúka og málið yrði sent til héraðssaksóknara. Maðurinn hefur hins vegar ekki enn verið ákærður.

Sigurður Fannar ákærður fyrir að bana dóttur sinni

Fá mál vöktu jafnmikinn óhug þjóðarinnar og lát tíu ára stúlku að nafni Kolfinna Eldey þann 15. september síðastliðinn. Kolfinna fannst látin nálægt Krýsuvíkurvegi er lögreglu bar að vettvangi. Sá sem tilkynnti um lát hennar var faðir stúlkunnar, Sigurður Fannar Þórsson. Hann hefur verið ákærður fyrir að hafa banað stúlkunni.

Sigurður Fannar Þórsson

Skömmu eftir voðaatburðinn fóru á flug flökkusögur í samfélaginu um að ótilgreind albönsk mafía hefði banað stúlkunni. Aldrei hefur komið neitt fram sem styður þær fullyrðingar. Er DV bar þetta undir Grím Grímsson, þáverandi yfirlögregluþjón á rannsóknarsviði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði hann:

„Nei, við höfum alveg fengið þessar upplýsingar eins og aðrir og eftir atvikum reynt að skoða þetta og það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé með þessum hætti. Ég hef  bent á það að við lögreglan erum auðvitað ekki án tengsla við það sem kallað er undirheimar.“

Sigurður var ákærður fyrir morðið í desember. Hann tók ekki afstöðu til ákæru þar sem hann áleit að frekari gögn í málinu ættu eftir að koma fram.

Í ákæru var því ekki lýst með hvaða hætti Sigurður á að hafa banað dóttur sinni. Hvorki var minnst á vopn ná áverka.

Sigurður er auk þess ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft ýmis fíkniefni í vörslu sinni, sem fundust við leit í vörugámi við Kapelluhraun í Hafnarfirði, 15. september, t.d. hass, kókaín, maríhúana, MDMA-kristallar og ýmislegt fleira.

Í þriðja lagi er Sigurður ákærður fyrir að hafa ræktað 79 kannabisplöntur í bílskúr, en lögreglan lagði halda á þær þann 14. maí 2024.

Fyrir hönd aðstandanda Kolfinnu Eldeyjar er krafist miskabóta að upphæð fimm milljónir krónar og útfararkostnaðar að upphæð 1,5 milljónir króna.

Dagsetning réttarhalda í málinu hefur ekki verið ákveðin.

Talinn hafa banað móður sinni í Breiðholti

39 ára gamall karlmaður var handtekinn snemma í október, grunaður um að hafa orðið móður sinni á sjötugsaldri að bana. Maðurinn glímir bæði við þroskaskerðingu og fíknivanda og hefur langan feril ofbeldisbrota að baki. Árið 2006 var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hann stakk föður sinn með hnífi í bakið. Móðir hans varð fyrir ítrekuðu ofbeldi  af hálfu mannsins sem stóð yfir árum saman og var hann árið 2022 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa ráðist á móður sína með ofbeldi, höggum og spörkum í líkama, andlit og höfuð og fyrir að taka hana hálstaki. Tilefni árásarinnar var ósætti um hvernig ætti að standa að útför föður mannsins sem þá var nýlátinn.

Hafdís varð fyrir manndrápstilraun á Vopnafirði

Hafdís Bára Óskarsdóttir. Skjáskot út Landanum á RÚV.

Ofbeldismál sem skók Vopnafjörð varð að fréttaefni í DV í október. Þar virtust yfirvöld lengi vel ætla að heykjast á því að úrskurða stórhættulegan mann í gæsluvarðhald og nálgunarbann gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni, Hafdísi Ósk Óskarsdóttur.

Um var að ræða tvö tilvik á örfáum dögum. Fyrst reyndi maðurinn að nauðga Hafdísi og síðan að ráða henni bana með járnkarli. Hafdís lá lengi á sjúkrahúsi á Akureyri eftir árásina.

Sjá einnig: Harmleikur í sumarhúsi, afi og amma geymdu dóp, blaðamanni DV hótað og Gabríel réðst á fangaverði

Maðurinn hefur síðan verið úrskurðaður margítrekað í vistun á viðeigandi stofnun og bíður ákæru.

Hafdís ræddi málið við DV þann 29. október og sagði meðal annars:

„Mér finnst algjörlega galið hvernig þetta er orðið með ofbeldi á Íslandi og gerendameðvirknin er gríðarleg hér landi, hjá yfirvöldum, stjórnvöldum. Það er bara yppt öxlum og ekki farið eftir lögum. Við erum með barnasáttmála sem á að vernda börnin okkar, en það er ekki farið eftir honum.“

Hún var ómyrk í máli um árásarmanninn og viðbrögð yfirvalda við framferði hans í gegnum tíðina:

„Ísland þarf að fara að gera sér grein fyrir einstaklingum sem eru siðblindir. Einstaklingum sem eru það veikir að þeir eru bara í leikriti. Honum tókst að fá sig lagðan inn á geðdeild með því að hóta sjálfsvígi. En þetta er maður sem hefur hótað sjálfvígi lengi en sem mun aldrei þora að taka eigið líf. Þetta er maður sem á ekki að komast upp með að ganga laus í íslensku samfélagi. Staðan er orðin þannig í dag. Við þessar konur sem hann hefur verið í langtímasamböndum með, við höfum allar elskað hann heitt og innilega og höfum reynt að gera það sem við gátum til að aðstoða hann.“

Hafdís sagði að fólk hefði sent henni alls konar stuðning sem henni þykir vænt um. Hún sagiðst eiga ákaflega sterkt bakland og fólki í baklandi hennar er nóg boðið vegna ofbeldisins sem hún hefur þurft að þola af hendi mannsins. Baklandið segir hingað og ekki lengra.

„Þetta er maður sem á að vera í fangelsi, þetta er maður sem á ekki að ganga laus,“ sagði Hafdís, staðráðin í að byggja líf sitt upp að nýju og hlúa að börnum sínum svo þau komist í gegnum þessar hremmingar.

Var Geirfinni ráðinn bani á heimili sínu?

Það sakamál sem var hvað mest í fréttum lokahluta ársins er ekki nýtt heldur hálfrar aldar gamalt. Sigurður Björgvin Sigurðsson sendi frá sér bókina „Leitin að Geirfinni“. Hann segist búa yfir upplýsingum um dauðdaga Geirfinns. Þær upplýsingar eru að hluta til birtar í bókinni en meginhluti þeirra er í umslagi sem Sigurður vill afhenda yfirvöldum sem hann vill að láta opna rannsóknina á hvarfi Geirfinns á ný.

Í bókinni er rannsókn lögreglu á málinu hökkuð í spað, bent á ótal mótsagnir og veilur. Þeirri megintilgátu lögreglunnar er hafnað að Geirfinnur hafi farið til fundar við mann í Hafnarbúðinni og það hafi leitt til hvarfs hans.

Þess í stað er teflt fram tilgátu – og hún rökstudd – að Geirfinnur hafi komið heim  til sín að konu sinni, Guðnýju Sigurðardóttur, og elskhuga hennar Svanberg Helgasyni. Brotist hafi út átök en á vettvangi var líka sameiginlegur kunningi Geirfinns og eiginkonu hans. Geirfinnur er sagður hafa látist í þessum átökum en teflt er fram vitnisburði fyrrverandi nágranna sem á að hafa verið sjónarvottur að átökunum, þá barn að aldri.

Sjá einnig: Fór ekki til fundar við mann í Hafnarbúðinni og „Leirfinnur“ hringdi ekki í hann

Yfirvöld hafa dregið lappirnar varðandi móttöku á nýjum gögnum bókarhöfundar um mál Geirfinns. Hjá embætti ríkissaksóknara hafa fengist þau viðbrögð að eðlilegt sé að afhenda gögnin Lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem síðan eftir atvikum taki ákvörðun um að endurvekja rannsókn málsins.

Þetta getur bókarhöfundur ekki sætt sig við og bíður færis á að koma erindinu til nýskipaðs dómsmálaráðherra.

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið um áramótin – Eins gott að klæða sig vel

Svona verður veðrið um áramótin – Eins gott að klæða sig vel
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna