Á-listinn, sem situr í meirihluta í Rangárþingi ytra, gaf út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum, þar sem heilbrigðisþjónusta í Rangárvallasýslu var sögð óásættanleg. Enginn læknir sé á vakt í sýslunni um hátíðirnar.
„Það er óásættanlegt að yfir hátíðirnar sé enginn læknir á vakt í sýslunni,“ segir í yfirlýsingu Á-listans. „Þessi staða, sem hefur því miður verið viðvarandi víða á landsbyggðinni, er skýr áminning um að heilbrigðiskerfið okkar stendur ekki undir grunnþörfum íbúa í dreifðum byggðum.“
Læknaskortur hefur verið í sýslunni. Sveitarfélagið birti nýlega auglýsingu Heilbrigðisstofnun Suðurlands um stöðu yfirlæknis á heilsugæsluna í Rangárþingi. Stöðvar eru á Hellu, í Rangarþingi ytra, og Hvolsvelli, í Rangárþingi eystra.
„Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um að efla heilsugæslu á landsbyggðinni hefur lítið sem ekkert breyst,“ segir í yfirlýsingunni. „Við krefjumst tafarlausra aðgerða til að tryggja aðgengilega og örugga heilbrigðisþjónustu fyrir alla, óháð búsetu. Það er ekki hægt að sætta sig við að íbúar í Rangárvallasýslu búi við ótryggt aðgengi að læknum, sérstaklega þegar veður og aðstæður gera ferðalög erfið eða ómöguleg.“
Leggi Á-listinn áherslu á öfluga grunnþjónustu fyrir alla íbúa Rangárþings ytra og vilji standa vörð um rétt íbúa til heilbrigðisþjónustu sem standist nútímakröfur.
„Við skorum á stjórnvöld að standa við gefin loforð og tryggja eflingu heilsugæslu á landsbyggðinni án tafar,“ segir að lokum. „Öryggi og heilsa landsmanna á að vera forgangsmál!“