Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru lóðareiganda nokkurs í sveitarfélaginu Vogum sem sakar nágranna sinn, eiganda samliggjandi lóðar, um að breyta um hálfrar aldar gömlum lóðamörkum lóða þeirra einhliða. Hafa nágrannarnir deilt um lóðamörkin í fjölda ára.
Íbúðarhúsin á lóðunum voru byggð 1969 og 1978. Eigandi eldra hússins kærði framkvæmdir eiganda yngra hússins á lóðamörkunum og krafðist þess að þær yrðu stöðvaðar og að hann myndi virða lóðamörkin sem sett hefðu verið sama ár og eldra húsið var byggt.
Í niðurstöðu nefndarinnar segir að eigendur lóðanna hafi deilt um lóðamörkin í mörg ár.
Árið 2017 óskaði eigandi yngra hússins eftir því að lóðin yrði sett út og var mælingafyrirtæki falið það verk. Sama ár sótti eigandinn um leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni að lóðamörkum. Var umsóknin grenndarkynnt og skilaði eigandi eldra hússins athugasemdum við þá kynningu þar sem byggingaráformunum var andmælt. Synjaði byggingarfulltrúi umsókninni þar sem ekki lá fyrir samþykki allra eigenda aðliggjandi lóða. Á þessu ári mun eigandi yngra hússins hafa hafið framkvæmdir við gerð stoðveggjar á lóðamörkunum.
Eigandi eldra hússins sagði í sinni kæru til nefndarinnar að lóðamörk sem gerð hafi verið árið 1969 ættu að standa en ekki þær mælingar sem gerðar hafi verið af fyrirtæki. Það sé einkennilegt að einn lóðareigandi geti farið fram á að færa lóðarmörk sinnar lóðar og hefji svo framkvæmdir án leyfis og samráðs við nágranna. Það sé einnig einkennilegt að ekkert leyfi hafi verið gefið út eða að ekkert eftirlit hafi verið með framkvæmdunum.
Sveitarfélagið Vogar sagði í sínum andsvörum að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir hinum umdeildu framkvæmdum. Um sé að ræða gerð stoðveggjar á lóðamörkum. Í byggingarreglugerð sé tiltekið að allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, auk gerðar palla og annars frágangs á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi.
Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi jafnframt fram að allur frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþeginn leyfi. Umræddur stoðveggur sé við jarðvegsyfirborð og því sé ekki um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Búið sé þar að auki að steypa vegginn.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir í sinni niðurstöðu að þar sem ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út sé ekki til staðar nein stjórnvaldsákvörðun sem hægt sé að kæra til nefndarinnar.
Kæru eiganda eldra hússins sem sakar þennan nágranna sinn um að breyta lóðamörkum einhliða var því vísað frá. Honum var hins vegar bent á að telji hann að framkvæmdir fari fram á lóð hans geti hann beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis og farið fram á beitingu þvingunarúrræða á grundvelli laga um mannvirki. Afgreiðsla slíks erindis sæti eftir atvikum kæru til nefndarinnar.
Það er því vel mögulegt að það sé langt frá því að þessum áralöngu nágrannaerjum í Vogum verði lokið í bráð.