Efnt hefur verið til rafrænnar undirskriftasöfnunar til stuðnings Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara í deilum hans við Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara sem vill losna við hann úr starfi og neitar að úthluta honum verkefnum. Þetta er í annað sinn á síðustu misserum sem efnt er til undirsskriftasöfnunar til stuðnings Helga Magnúsi.
Stofnað var til nýju undirskriftasöfnunarinnar á Ísland.is. Í texta með söfnuninni segir að með því að undirrita sé viðkomandi að lýsa yfir stuðningi sínum við Helga Magnús og störf hans hjá embætti ríkissakóknara. Sérstaklega þar sem nú sé aftur vegið að æru hans af ríkissaksóknara sem hunsi „starfskrafta hans“ og virði ekki „embættisskyldu sína og samstarfsvilja.“
Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er ábyrgðarmaður söfunarinnar en hann var um tíma virkur í starfi Miðflokksins en tók þátt í starfi Lýðræðisflokksins vegna alþingiskosninganna í nóvember síðastliðnum.
Þegar þessi orð eru rituð hafa um 300 manns skráð nafn sitt á listann.
Deilur Helga Magnúsar og Sigríðar hafa staðið yfir um margra missera skeið.
Sigríður fór fram á það fyrr á þessu ári að Guðrún Hafsteinsdóttir þáverandi dómsmálaráðherra myndi víkja Helga Magnúsi úr starfi vegna ummæla hans um innflytjendur en hann lét þau falla í kjölfar linnulausrar áreitni og hótana af hálfu innflytjandans Mohamad Kourani. Á meðan Guðrún var með málið til meðferðar var Helgi í sumarleyfi og var þá efnt til undirskriftasöfnunar honum til stuðnings.
Guðrún komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur fyrir því að víkja Helga Magnúsi frá störfum en áréttaði að ummæli hans hefðu ekki samræmst stöðu hans. Helgi Magnús tók sjálfur undir að ummæli hans hefðu ekki verið heppileg.
Eins og DV greindi frá skömmu fyrir jól var Helgi Magnús í veikindaleyfi eftir að sumarleyfinu lauk en er nú snúinn aftur til starfa. Sigríður hefur hins vegar látið loka fyrir aðgang hans að tölvukerfi embættisins og neitar að úthluta honum verkefnum.
Sigríður sagði í tilkynningu að Helgi Magnús hefði í fleiri skipti viðhaft ýmis ummæli opinberlega sem að væru ósamrýmanleg stöðu hans sem vararíkissakóknara. Vísaði hún til áminningar sem hún veitti honum árið 2022 vegna ummæla um m.a. brotaþola í kynferðisbrotamálum, hælisleitendur og samkynhneigða karlmenn. Í áminningarbréfinu hafi verið vísað til þess að ummæli Helga Magnúsar hefðu verið til þess fallin að draga úr trausti til vararíkissaksóknara, embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins.
Í viðtali við DV sagði Helgi Magnús meðal annars að hann væri eins og Sigríður skipaður af ráðherra. Staða hans sé eins og hennar lögbundinn og úrskurður fyrrum dómsmálaráðherra sé skýr. Sigríður hafi enga lagaheimild til að víkja honum úr starfi eða halda verkefnum frá honum. Málið sé farið að minna meira á einelti en lögfræði.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók við embætti dómsmálaráðherra fyrir viku. Í gær sagði hún í samtali við RÚV að afar slæmt sé að ríkissaksóknari og vararíkissaksóknari deili með þessum hætti fyrir opnum tjöldum. Það rýri traust til ákæruvaldsins og hún sé með það í skoðun hvernig hægt sé að bregðast við og höggva á hnútinn.