Þar gagnrýnir hann ríkjandi fyrirkomulag hér á landi varðandi þá sem koma í starfsendurhæfingu, en fyrirtæki hans hefur átt í góðu samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð um að opna leið fyrir skjólstæðinga þeirra inn á vinnumarkaðinn.
Í grein sinni bendir Hákon á að töluvert af nýju starfsfólki hafi komið til fyrirtækisins í gegnum þetta samstarf, enda sé boðið upp á hlutastarf með sveigjanlegum vinnutíma eftir þörfum hvers og eins.
„Þrátt fyrir árangurinn hafa komið upp áskoranir. Sem dæmi tilkynnti starfsmaður hjá mér fyrr á árinu að hann þyrfti að segja upp störfum. Hann hafði staðið sig einstaklega vel í starfi, var vel liðinn af samstarfsfólki og sýndi mikinn áhuga á vinnu. Þegar ég spurði hvort eitthvað í starfinu eða launakjörin væri ástæða uppsagnarinnar, þá útskýrði hann að þetta væri algjörlega óháð vinnustaðnum. Hann sagði einfaldlega: „Ég hef lent í skerðingu bóta og má ekki vinna svona mikið.“
Hákon segir að umræddur starfsmaður hafi verið nýkominn aftur á vinnumarkaðinn eftir langa fjarveru vegna veikinda.
„Hann byrjaði varlega og byggði smám saman upp starfsorku sína. Hins vegar fór hann yfir frítekjumarkið sem bætur hans leyfðu og þurfti þess vegna að endurgreiða hluta þeirra. Þetta reyndist honum mikið áfall, þar sem hann hafði lagt hart að sér við að byggja upp starfsgetu á ný. Kerfið sýndi hins vegar engan skilning á þeirri framþróun sem hann hafði náð. Í stað þess að styðja við þessa endurkomu hans á vinnumarkaðinn, var honum refsað fyrir að taka of stór skref,“ segir hann.
Hákon segir í grein sinni að þetta sé því miður ekki eina dæmið og fleiri tilvik komið upp þar sem starfsfólk hefur þurft að fylgjast vel með vinnutímanum og tekjum í hverjum mánuði til að forðast endurgreiðslur.
„Starfsendurhæfing er ómetanlegur þáttur í því að hjálpa einstaklingum að komast aftur til vinnu. Hún er hluti af flóknu og jafnvel löngu ferli þar sem margir aðilar vinna saman að því að veita fólki stuðning og tækifæri. Þegar einstaklingar ná loks að snúa aftur inn á vinnumarkaðinn, ætti kerfið að styðja við þá vegferð – ekki refsa þeim fyrir framfarir.“
Er það mat Hákonar að skapa þurfi hvata til atvinnuþátttöku án þess að hætta á skerðingu bóta komi í veg fyrir að fólk reyni að taka þátt í samfélaginu á ný.
„Á móti þarf einnig að tryggja að opinbert fé sé vel nýtt og að girða fyrir misnotkun. Réttmætt væri að setja tekjuþak á skerðingarlausar bætur, þannig að úrræðið nýtist best þeim sem raunverulega þurfa á því að halda. Til dæmis mætti setja þakið miðað við meðallaun í viðkomandi starfsstétt, þar sem bætur myndu byrja að skerðast ef tekjur fara yfir það mark,“ segir hann og nefnir einnig að starfsendurhæfingarstöðvar gætu gegnt lykilhlutverki í ferlinu við að meta hvort viðkomandi eigi rétt á starfsendurhæfingu og þróa einstaklingsmiðaðar áætlanir sem taka mið af þörfum, getu og markmiðum hvers og eins.
„Starfsendurhæfing er lykillinn að því að hjálpa fólki að ná sjálfstæði og taka virkan þátt í samfélaginu. Það er nauðsynlegt að tryggja að kerfið vinni með fólki, ekki gegn því, og að það sé sveigjanlegt og réttlátt fyrir alla sem á því þurfa að halda. Þegar kerfið styður við einstaklinga á viðkvæmum tímamótum, eykst ekki aðeins velgengni þeirra heldur græðir samfélagið allt um leið,“ segir hann að lokum.