Í dag má gera ráð fyrir suðvestan 10 til 18 metrum á sekúndu og slydduéljum eða skúrum sunnan- og vestantil framan af morgni. Á norðaustanverðu landinu verður aftur á móti úrkomulítið.
Um helgina fer veður svo kólnandi og á sunnudag, 29. desember, er gert ráð fyrir 5 til 20 stiga frosti á landinu þar sem kaldast verður inn til landsins. Það verður bjart á suðurhelmingi landsins og hægur vindur.
Á mánudag verður austlæg átt og snjókoma með köflum en norðlægari og dálítil ég norðaustanlands, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Talsvert frost verður áfram um allt land. Og um gamlársdag og nýársdag segir í spá Veðurstofunnar:
„Fremur hæg norðlæg og dálítil él á Norður- og Austurlandi, en annars yfirleitt bjartviðri. Áfram kalt í veðri.“
Samkvæmt spákorti Veðurstofunnar klukkan 12 á miðnætti á gamlárskvöld má gera ráð fyrir 14 stiga frosti á höfuðborgarsvæðinu, 12 stiga frosti á Akureyri og 9 stiga frosti á Egilsstöðum. Nýja árið heilsar einnig með talsverðu frosti og þannig má gera ráð fyrir 12 stiga frosti í hádeginu á nýársdag á höfuðborgarsvæðinu og 8 stiga frosti norðan heiða.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s og víða dálítil él. Gengur í norðan 10-15 með snjókomu eða éljagangi uppúr hádegi, fyrst norðvestantil, en rofar til sunnan heiða. Frost 1 til 10 stig, minnst við sjávarsíðuna.
Á sunnudag:
Norðlæg átt, 3-8 m/s og skýjað með köflum, en 8-15 m/s og él norðaustanlands fram á kvöld. Frost 5 til 20 stig, kaldast inn til landsins.
Á mánudag:
Austlæg átt snjókoma með köflum, en norðlægari og dálítil él norðaustanlands. Talsvert frost um allt land.
Á þriðjudag (gamlársdagur) og miðvikudag (nýársdagur):
Fremur hæg norðlæg og dálítil él á Norður- og Ausutrlandi, en annars yfirleitt bjartviðri. Áfram kalt í veðri.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir hæga vinda, bjartviðri og hörkufrost.