fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Fréttir

Snúin staða á norðurslóðum – Getur Ísland orðið að fylki í Bandaríkjunum?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 27. desember 2024 15:30

Hilmar Þór Hilmarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttir um áhuga Donald Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna, á því að kaupa Grænland af Danmörku, hafa vakið mikla athygli. Yfirýsingar Trumps í þessa veru endurspegla aukið mikilvægi norðurslóða en hlýnun jarðar leiðir til greiðari siglinga um svæðið.

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og þekktur álitsgjafi um alþjóðamál, veltir upp stöðunni á norðurslóðum í grein á Vísir.is í dag. Hilmar bendir á að stórveldi eigi sér hagsmuni en ekki vini og hagsmunamat ræður för í því valdabrölti sem er framundan í heiminum, sem endra nær. Hilmar segir í grein sinni:

„Vegna stríðsins í Úkraínu er Danmörk nú háðari Bandaríkjunum en árið 2019 og er eins og Ísland undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna. Sumir leiðtogar NATO ríkja óttast að Bandaríkin taki öryggisregnhlífina í burtu. Donald Trump hefur líka gefið í skyn að hann muni ekki koma NATO ríkum til varnar er á þau verður ráðist.

Hafa verður í huga að vegna loftlagsbreytinga eru nú miklar auðlindir Grænlands, sem áður voru óaðgengilegar, að verða nýtanlegar. Líklegt er að þessar auðlindir, t.d. sjaldgæfir málmar, séu ekki síður ástæða endurnýjaðs áhuga Trump á Grænlandi, en þjóðaröryggi Bandaríkjanna eða frelsi í heiminum. Þó gæti aðgangur að sjaldgæfum málmum orðið mál sem tengist þjóðaröryggi Bandaríkjanna þó það réttlæti ekki ummæli Trumps og hugsanlegar aðgerðir. Eflaust gætu Bandaríkin líka keypt málma af Grænlandi er vilji væri fyrir hendi án þess að fá yfirráð yfir landinu.“

Hilmar veltir því fyrir sér hvort Úkraínustríðið hafi leitt til þess að það sjónarmið að öll ríki verði að virða alþjóðalög sé að víkja fyrir þeirri reglu að sá sterkari ráði. Ef styrjöld brýst úr á norðurslóðum mega lönd á borð við Ísland og Danmörku sín lítils án fulltingis Bandaríkjanna.

„Mikil óvissa er framundan og átakalínur að færast á norðurslóðir og nær Íslandi. Svo er spurning hvert NATO ríki eins og Danmörk og Kanada leita ef Donald Trump setur mikinn þrýsting á löndin. Reyna þau að semja eða reyna þau að mynda einhver bandalög? Svo er Panama í vanda og má sín lítils gagnvart Bandaríkjunum ef í hart fer,“ segir Hilmar í grein sinni, og ennfremur:

„Nýlegar yfirlýsingar Donald Trump gætu svo bent til þess að „America First policy“ feli í sér vilja til auka yfirráð þessa öflugasta stórveldis heimsins út fyrir landamæri sín í nafni frelsis, viðskipta- og þjóðaröryggishagsmuna. Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini.“

DV spurði Hilmar að því hvort hann teldi möguleika á því að Ísland yrði innlimað í Bandaríkin í náinni framtíð. Hann segir það ekki líklegt en telur að smáríki á borð við Ísland og Danmörku eigi að tala fyrir friði í heiminum, það komi þeim best:

„Á friðartímum er mögulegt fyrir Danmörku að fara með utanríkis- og öryggismál Grænlands. Nú eru hinsvegar ekki friðartímar og Rússland hefur yfirburðastöðu á norðurslóðum og er í bandalagi við Kína. Þetta setur Dani í vanda. Á sama tíma vilja Bandaríkin styrkja sína stöðu á þessu svæði. Danmörk hefur sent mikið af vopnum til Úkraínu með þeim skilaboðum að Úkraínumenn sigri Rússa á vígvellinum. Samband Danmerkur og Rússlands er því mjög slæmt. Trump virðist vera þeirrar skoðunar að aðeins Bandaríkin geti gætt öryggis Grænlands og vill kaupa landið og hugsanlega breyta því í fylki? Svo er hann farinn að tala um Kanada sem hugsanlegt fylki. Þetta vekur svo spurningar um stöðu Íslands. Verði Grænland fylki í Bandaríkjunum liggur efnahagslögsaga okkar að Bandaríkjunum. Ég er ekki að segja að það sé líklegt að Grænland, Kanada, hvað þá Ísland verði fylki í Bandaríkjunum en það er nú mikil óvissa á þessu svæði. Ég hef alltaf sagt að fyrir smáríki er best að friður sé í heiminum og að smáríki eins og Danmörk og Ísland hefðu átt að tala fyrir friði og samningum í Úkraínu vegna þess að það þjónar okkar hagsmunum best. Nú er hinsvegar alger óvissa og Donald Trump forseti Bandaríkjanna fer sínar leiðir. Ef samið hefði verið um frið í Úkraínu í mars 2022 hefði þessi staða aldrei komið upp. Staða Dana til að fara með utanríkismál Grænlands væri sterkari. Það er alveg ljóst að ef styrjöld brýst út á norðurslóðum mega smáríki eins og Danmörk sín lítils, hvað þá Ísland sem er herlaust. Það er ekki líklegt að stórstyrjöld verði á þessu svæði á næstunni en það er alls ekki hægt að útiloka það þegar nánast ekkert talsamband er á milli Bandaríkjanna og Rússlands og viðskiptastríð við Kína. Spennan bara vex og engir tilburðir til að lægja öldurnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dró upp hníf eftir rifrildi á samkomustað

Dró upp hníf eftir rifrildi á samkomustað
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum