Fyrr á árinu létust fjölmargir liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Hizbollah þegar símboðar þeirra og talstöðvar sprungu skyndilega. Ísraelska leyniþjónustan hafði komið sprengiefni fyrir í tækjunum og sprengdi þau síðan með fyrrgreindum afleiðingum.
Þessi aðferð vakti mikla athygli víða um heim og ef miða má við það sem talsmenn FSB segja þá virðast Úkraínumenn hafa ætlað að herma eftir henni. Að minnsta kosti segir FSB að tekist hafi að koma í veg fyrir banatilræði við fjölda háttsettra starfsmanna varnarmálaráðuneytisins og fjölskyldur þeirra.
Segir FSB að sprengjur hafi verið dulbúnar sem hleðslubankar og sem skjalamappa og verið sagt vera jólagjafir. Ríkisfréttastofan TASS skýrir frá þessu.
FSB sakar Úkraínumenn um að hafa staðið á bak við þessa misheppnuðu aðgerð og segir að um tilraun til hryðjuverks hafi verið að ræða.
Fjórir rússneskir ríkisborgarar eru í haldi vegna málsins.