Knútur Knútsson, maður á sextugsaldri, var þann 20. desember síðastliðinn sakfelldur fyrir skattsvik í rekstri fyrirtækisins Vír og lykkjur. Var honum gefið að sök að hafa vanframtalið tekjur fyrirtækisins fyrir rekstrarárið 2019 vegna framtals 2020 um tæplega 66 milljónir króna, og þannig komist undan því að greiða tekjuskatt upp á rétt rúmar 30 milljónir króna.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness og var Knútur dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 60 milljónir króna í sekt í ríkissjóð, ella sæta fangelsi í 12 mánuði.
Dóminn má lesa hér.
Knútur hefur áður gerst sekur um skattsvik. Árið 2021 var Knútur sakfelldur ásamt öðrum manni fyrir stórfellt skattalagabrot í rekstri fyrirtækisins Aflbinding – járnverktakar og var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 70 milljóna króna sektar.
Aflbinding átti glæsta en þyrnum skráða sögu. Forverinn Aflbinding ehf. varð gjaldþrota árið 2009. Aflbinding fékkst við járnabindingu fyrir staðsteypt mannvirki, eins og segir í frétt Viðskiptablaðsins frá 2014. Stóð Aflbinding að byggingu fjölmargra merkra bygginga, t.d. Höfðatorgs, Háskólans í Reykjavík og Hellisheiðarvirkjunar.
Eftir haustið 2008, á sama tíma og bankakerfið hrundi á Íslandi, fækkaði verkefnum Aflbindingar mikið. Skiptum í þrotabúinu lauk árið 2014, engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur voru upp á rúmlega 63 milljónir. Knútur sagði við Viðskiptablaðið árið 2014:
„Við vorum búnir að leggja þúsundir tonna í alls konar byggingar. Þetta var komið upp í annað hundrað verkefni. Svo gerist það að haustið 2008 hverfur þetta gjörsamlega allt saman. Við förum úr 140 starfsmönnum árið 2008 niður í átta í desember sama ár.“
Aflbinding – járnverktakar fór síðan sömu leið og forverinn og var tekið til gjaldþrotaskipta.