Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri Samstöðvarinnar, er vígreifur eftir að blaðamaður stöðvarinnar, Hjálmar Friðriksson, vann fullan sigur í meiðyrðamáli gegn þremur auðmönnum og ráðningarþjónustunni Elju, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Aðilarnir stefndu Hjálmari fyrir að kalla þá þrælahaldara í kjölfar þess að pólskur verkamaður lét lífið í eldsvoða í iðnaðarhúsnæði í Funahöfða, en þar bjó maðurinn við erfiðar aðstæður í húsi sem er í eigu þeirra Péturs Árna Jónssonar, framkvæmdastjóra HEILD fasteignafélagsins og aðaleiganda útgáfufélags Viðskiptablaðsins, Jóns Einars Eyjólfssonar, stjórnarmanns hjá Elju starfsmannaþjónustu, og Arnars Haukssonar, sem starfað hefur sem stjórnandi hjá Elju.
Krafist var ómerkingar á sex ummælum þar sem Hjálmar kallaði mennina nútíma þrælahaldara og var Hjálmar jafnframt krafinn um 15 milljónir króna í bætur. Hjálmar var sýknaður af öllum kröfum og stefnendur dæmdir til að greiða honum málskostnað að fjárhæð hátt í tvær milljónir króna.
Gunnar Smári segir að málið hafi staðið Samstöðinni fyrir þrifum þar sem stöðin er óburðug fjárhagslega. Eigendaábyrgð hvílir á eigendum fjölmiðla ef meiðyrðamál eru höfðuð á blaðamenn þeirra. Ljóst er að 15 milljóna krafa er þungur biti fyrir Samstöðina. Lögmannsþjónusta í málinu hefur líka þegar kostað sitt. Gunnar Smári skrifar á Facebook:
Ánægjulegt að tjáningarfrelsið sé enn varið á Íslandi. Ég hefði viljað að héraðsdómur gengi lengra og neitaði að taka þetta mál fyrir, sem augljóslega var stofnað til af auðugum mönnum til þagga niður í umfjöllun um vond áhrif þeirra á samfélagið. Það er allt of mikið tekið fyrir af svona tilhæfulausum málum þar sem yfirgangssamir frekjudallar, sem hafa auðgast af því að arðræna saklaust og veikstætt fólk, ætla að beita því valdi sem peningar búa yfir til að skapa sér einhvern heilagleika í samfélaginu, hefja sig upp yfir annað fólk og gera sig ósnertanlega. Svo þeir geti haldið áfram að eitra samfélagið, veikja og brjóta niður. Það er spurning hvort ekki hefði átt að dæma þá til að ganga í stuttermabolum í fimmtán ár, merktum SKÍTAPAKK.
Samstöðin er svo fátæk að varnir í þessu máli grófu undan möguleikum stöðvarinnar að halda úti fréttavef. Ef þú vilt styrkja Samstöðina til góðra verka ættir þú að gerast áskrifandi hér: https://askrift.samstodin.is/