Flugi Play frá Billund í Danmörku í dag hefur verið aflýst vegna bilunar í vél. Play segir að farþegar fái fulla endurgreiðslu.
Nokkur umræða hefur skapast um þetta á meðal Íslendinga í Danmörku enda áramótin í húfi fyrir fólk. Flugið átti að vera klukkan 11:30 í dag. Gremst fólki að hafa ekki verið útvegað annað flug í staðinn fyrir það sem var aflýst eða bætur vegna gistingar sem þeir hafa bókað.
„Við þurftum að aflýsa þessu flugi frá Billund vegna bilunar í vél,“ segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play. „Farþegar fá fulla endurgreiðslu á flugferðum sem þeir höfðu bókað með okkur.“
Þegar þetta er skrifað er enn þá laust í flug frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dagana 29., 30. og 31. desember eins og sést á vef Play. Verðið er hins vegar mun hærra en vanalega. Það er frá 57 til 83 þúsund krónur, samanborið við 14 til 25 þúsund krónur í janúar.