Steingrímur Sævarr Ólafsson, fjölmiðlaráðgjafi og almannatengill, rifjar í dag upp ferð sem breytti honum sem einstaklingi. Ferð sem breytti lifsviðhorfum hans og verðmætamati. Ferð sem kenndi honum að nýta hvern dag til hins ýtrasta, því núið er það eina sem við eigum öruggt.
Fyrir 20 árum í dag skal flóðbylgja á í Asíu, tók hún 230 þúsund mannslíf og gríðarlegt eignatjón. Steingrímur var fenginn til að fara með í sjúkraflug til Tælands til að sækja hóp slasaðra Svía og flytja til síns heima.
„Og ekkert varð aftur eins…
Mér dugar að loka augunum til að finna lyktina af dauðanum, heyra sárasta grátur sem mannseyrað getur numið og finna handtak sem felur í sér meiri söknuð og eftirsjá en nokkuð annað. Að mannsheilinn geti á einu augnabliki framkallað þetta allt eins og þetta hafi gerst fyrir nokkrum mínútum er jafn ótrúlegt og það sem gerðist…fyrir 20 árum í dag. Ég missti engan á þessum degi, en hann markar samt upphaf dags sem gerbreytti öllu hjá mér. Lífsviðhorfum, verðmætamati og stundum held ég að hann hafi á sama tíma gert mig bæði tilfinninganæmari og tilfinningakaldari, eins einkennilegt og það hljómar. En þessi dagur breytti mér. Dagurinn sem flóðbylgjan mikla, Tsunami, skall á í Asíu og tók í einu vetfangi yfir 230.000 mannslíf.“
„Það var á þessum degi fyrir 20 árum sem ég var að narta í síðustu rjúpnalærin í Reykjavík þegar þessar miklu náttúruhamfarir áttu sér stað, grunlaus um það sem framundan var. Örfáum dögum síðar var ég farinn í björgunarleiðangur til Tælands.
Milli jóla og nýárs fékk ég símtal frá forsætisráðuneytinu með beiðni um að ég færi með í sjúkraflug til Tælands til að sækja hóp slasaðra Svía og flytja til síns heima.
Icelandair útvegaði flugvél sem sérstaklega var útbúin til að flytja til Stokkhólms slasaða sænska ferðamenn og settur var saman hópur færustu einstaklinga á sínu sviði. Hópurinn sem fór út var gríðarlega vel skipaður læknum, hjúkrunarfræðingum, björgunarsveitarmönnum, skipuleggjendum, sjúkraflutningamönnum, flugmönnum, flugfreyjum og svo mætti áfram telja. Algjörar hetjur sem ég bar og ber enn í dag takmarkalausa virðingu fyrir. Allt var þetta fólk sem lagði sig fram langt umfram skyldu og væntingar, fólk sem á skilið svo mikið lof.Af hverju þetta fólk hefur ekki verið heiðrað sérstaklega af sænskum yfirvöldum fyrir framlag sitt er mér enn óskiljanlegt. Hetjur, ekkert annað en hetjur.“
Steingrímur segir að í þennan hóp vantaði einhvern sem gæti verið formlegur tengiliður milli stjórnvalda á Íslandi, Tælandi og í Svíþjóð, einhvern sem gæti mögulega kjaftað sig út úr óvæntum vandræðum, einhvern sem gæti bjargað sér á skandinavísku, einhvern sem gæti skrifað um þetta og miðlað áfram. Og það reyndist vera ég.
Dagarnir sem í hönd fóru fyrir þessum tuttugu árum eru jafn skýrir og þeir hefðu gerst fyrir svo stuttu síðan. Skyndikúrsar í hinu og þessu, bólusetningar, skipulagningarfundir, kynnast hetjunum sem sinntu alvöru verkefnunum í ferðinni og síðast en ekki síst að undirbúa sig andlega.
Eins og maður hefði getað undirbúið sig undir það sem blasti við manni við komuna til Tælands. Ekkert varð eins eftir þessa ferð.“
„20 ár og ég heyri enn raddir þeirra sem leituðu í örvæntingu að börnunum sínum sem sópast höfðu burt, jafnvel úr höndunum á foreldrunum. Börn sem leituðu foreldra sinna. Makar að leita maka, vinir vina. 20 ár og ég sé enn tóm augu eftirlifenda, starandi út í tómið, sögur af börnum sem þau gátu ekki bjargað og horfðu á eftir í flóðbylgjunni. Gráturinn, þessi sári, sári grátur.
„Ég hafði hann, ég hafði hann, ég hafði hann, ég hafði hann…“ var það eina sem kom frá föður. Flóðbylgjan hafði hrifið soninn úr höndum hans að eilífu. Móðirin sem ríghélt í lúin, lítinn bangsa. Hún sagði ekki orð en sorginni í augunum er ekki hægt að lýsa með nokkru móti.
Þetta var ferðalag sem ég kom ekki samur til baka úr.
Skilaboðin eru einföld. Lifðu, því þú veist ekki hvaða tíma þú hefur. Horfðu á heildarmyndina og elskaðu. Ekki láta smáatriði eyðileggja stóru myndina þína. Segðu það sem þú þarft að segja við þá sem þú þarft að segja þá við. Gerðu það sem þú þarft að gera. Vertu sá sem þú átt að vera. Lifðu!
Þú getur ekki breytt gærdeginum og þú veist ekki hvernig morgundagurinn er; nýttu daginn í dag til hins ítrasta. Dagurinn í dag er dagurinn sem skiptir máli. Núið er allt sem við eigum.“