fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Sakamál ársins II: Harmleikur í sumarhúsi, afi og amma geymdu dóp, blaðamanni DV hótað og Gabríel réðst á fangaverði

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 26. desember 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 21. apríl voru fjórir menn handteknir vegna rannsóknar á láti manns í sumarhúsi í Kiðjabergi, í uppsveitum Árnessýslu. Mennirnir voru allir frá Litháen og höfðu verið að vinna við byggingu sumarhúss á svæðinu. Fljótlega var þremur sleppt lausum en einn sat áfram í gæsluvarðhaldi.

Hinn látni var Victoras Buchovskis, fæddur árið 1987. DV ræddi við vin hins látna skömmu eftir atburðinn, sem einnig er frá Litháen en býr og starfar í Noregi. Hann hafði verið í sambandi við kærustu hins látna og hún greint honum frá því að skömmu eftir árásina hafi Victoras hringt í hana og sagst hafa fallið úr stiga og brotið rifbein.

Síðar var samlandi Victoras, Gediminas Saulys, ákærur fyrir að hafa banað honum. Var hann ekki ákærður fyrir manndráp heldur sérstaklega hættulega líkamsárás.  Í ákæru er Gediminas sagður hafa veist að Victoras með margþættu ofbeldi þannig að hann hlaut bana af… „en atlagan beindist að höfði, hálsi og líkama V, þar á meðal með því að slá hann tvisvar í andlitið þar sem að hann sat á stól, þannig að hann féll í gólfið, allt með þeim afleiðingum að V hlaut af fjölþætta áverka, þar á meðal leðurhúðar- og húðbeðsblæðingar á vinstra gagnauga, hvirfil- og hnakkasvæði með undirliggjandi útbreiddri blæðingu í höfuðleðrið og vinstri gagnaugavöðvann, auk umtalsverðra blæðinga í vinstri hluta hálsins og á vinstra eyrnasvæðinu með undirliggjandi mjúkvefjarblæðingum og broti á efra vinstra horni skjaldbrjósksins, skrámur á höfði, undirhúðablæðingar á augnsvæðum og vinstri kinn, mar á framhluta nefs, slímhúðarblæðingar innanvert á neðri vör og aftarlega í slímhúð hægri kinnar, blæðingar í hægra ennisblaði og hægra gagnaugablaði og mikla og útbreidda áverka á heilavef í heila, litla heila og heilastofni, en V lést af völdum heilaáverkans,“ segir í ákærunni.

Réttað verður yfir Gediminas við Héraðsdóm Suðurlands á Selfossi þann 8. janúar næstkomandi.

Mohamad hótaði blaðamanni og mörgum öðrum

Ofbeldismaðurinn Mohamad Kourani viðhafði hótanir gagnvart blaðamanni DV er hann bar vitni í Héraðsdómi Reykjaness. Sagði hann við dómara að það yrðu alvarlegar afleiðingar fyrir blaðamann DV ef dómari stöðvaði ekki skrif hans og stöðvaði ekki störf blaðamanna í dómsalnum, en blaðamenn frá DV og Vísir sátu í dómsalnum við fréttaskrif.

Er langt var liðið á skýrslutöku yfir Kourani sneri hann sér við, en hann sneri baki við áheyrendum, og hvessti augun á blaðamann DV. Síðan viðhafði hann áðurnefnd ummæli.

„Þetta er minn réttur,“ sagði Kourani við dómara. Sagði hann að blaðamaður þyrfti leyfi frá honum til að flytja fréttir af málinu en ekki bara frá dómara.

Við þingfestingu málsins, nokkru áður, hafði Kourani hótað dómara, lögreglumönnum, eigin lögmanni, túlki og fleira starfsfólki dómsins lífláti.

„Telur þú það vera rétt þinn að hóta blaðamönnum?“ spurði þá dómari. Kourani sagði svo ekki vera.

Mohamad Kourani. Mál hans hefur skapað mikla umræðu um fólk með alþjóðlega vernd sem brýtur af sér.

Þetta átti sér stað þann 3. júlí. Kourani var ákærður fyrir sex brot, alvarlegast var hnífstunguárás í OK Market að Hlíðarenda, þar sem hann réðst á tvo menn með hnífi. Aðrir ákæruliðir varða brot gegn valdstjórninni, hótanir gegn lögreglumönnum og ofbeldi gegn fangavörðum á Litla-Hrauni.

Mikið var fjallað um mál Mohamads Kourani á árinu en í ljós kom að hann hefur árum saman hótað fólki hér á landi sem hefur ekki farið að vilja hans. Meðal þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á hótunum hans eru Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari. Mohamad, sem er frá Sýrlandi, hlaut alþjóðlega vernd hér á landi árið 2018. Vakti það óánægju almennings að maður gæti þráfaldlega brotið lög án þess að vera sviptur alþjóðlegri vernd.

Mohamad Kourani var dæmdur í átta ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness þann 15. júlí.

Hörður Ellert sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni

Þann 27. júní sneri Landsréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sakfelldi mann á fimmtugsaldri, Hörð Ellert Ólafsson, fyrir stórfelld og margítrekuð kynferðisbrot gegn fyrrverandi stjúpdóttur sinni. Var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi. Hörður hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.

Í ákæru var Hörður sakaður um kynferðisbrot gegn barni og stórfellt brot í nánu sambandi, með því að hafa á tímabilinu 2016 – 2019, á heimili sínu, misnotað freklega yfirburðastöðu sína gegn stúlkunnni, traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir, og endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar með því að hafa í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung misnotað hana kynferðislega á margvíslegan hátt sem tilgreindur er með ítarlegum hætti í ákærunni. Eru þar mjög grófar lýsingar, en um var að ræða kynmök önnur en samfarir auk þess sem Hörður var sakaður um að sýna stúlkunn klámefni.

Brotin stóðu yfir þegar stúlkan var á aldrinum 9 til 13 ára en málið kom upp árið 2019 er yfirvöld í skóla stúlkunnar höfðu samband við foreldra hennar vegna þess að hún hafði komið með áfengi í skólann. Í kjölfar þessa atviks greindi stúlkan föður sínum frá brotum Harðar. Áður hafði hún greint þremur vinkonum sínum frá brotunum. Báru þær allar vitni fyrir dómi.

Stúlkan sagði að Hörður hefði misnotað sig að meðaltali einu sinni í viku í um meira en þriggja ára skeið, eða samtals oftar en 100 sinnum.

Framburður stúlkunnar þótti vera mjög trúverðugur auk þess sem hann var fullkomlega í samræmi við framburð vitna í málinu, en þar er um að ræða þrjár vinkonur hennar, en Landsréttur mat framburð þeirra mjög trúverðugan, og móður hennar, en hún tjáði sig um tiltekin atvik sem borin voru undir hennar. Sneru þau m.a. að grunsamlegum viðbrögðum Harðar og barnsins þegar móðirin kom óvænt að þeim, og sæðisklístri í bol sem Hörður hafði losað sig við eftir að hafa brotið gegn stúlkunni.

Héraðsdómur hafði byggt sýknudóm sinn á því að framburður Harðar væri staðfastur og trúverðugur, rétt eins og framburður stúlkunnar og vitna. Hins vegar væri ekki beinum sönnunargögnum til að dreifa og sekt hans því ekki hafin yfir skynsamlegan vafa.

Landsréttur lagði hins vegar áherslu á það að framburður Harðar fengi ekki stoð í framburði vitna en það geri aftur á móti framburður brotaþola. Einnig vegur þungt að gögn frá Barnahúsi styðja eindregið framburð brotaþola.

Það var virt Herði til refsilækkunar að hann hefur ekki gerst brotlegur við lög áður. Einnig var langur málsmeðferðartími virtur til refsilækkunar. Hins vegar segir í dómsniðurstöðu Landsréttar:

„Við ákvörðun refsingar ákærða verður á hinn  bóginn  jafnframt  litið  til  þess  að  hann  nýtti  sér  yfirburðarstöðu  sína  gagnvart brotaþola, sem var á barnsaldri, og misnotaði sem stjúpfaðir traust hennar og trúnað  um þriggja ára skeið. Þessi háttsemi ákærða ber vott um styrkan og einbeittan ásetning  hans til að brjóta gegn stjúpdóttur sinni. Svo sem áður er vikið að bera gögn málsins með  sér  að  brot  ákærða  hafi  haft  alvarlegar  afleiðingar  fyrir  heilsu  brotaþola.“

Hörður Ellert Ólafsson er fæddur árið 1979. Hann hefur meðal annars komið að kvikmyndagerð og rekstri veitingahúsa. Hefur hann stundum komið fram í fjölmiðlum í tengslum við starfsemi sína.

Sólheimajökulsmálið: Margir sakfelldur fyrir skipulagða brotastarfsemi

Í sumar voru 18 manneskjur ákærðar í einu og sama fíkniefnamálinu, 12 karlar og fimm konur. Fólkið er á ýmsum aldri, allt frá rétt undir þrítugu og upp fyrir sjötugt. Í hópnum er að finna ævilanga vini og ættingja, mæðgur, feðga og feðgin. Elsta fólkið í hópnum virðist helst hafa haft það hlutverk að geyma á heimilum sínum fíkniefni fyrir börnin sín, meðal annars kókaín og amfetamín. Þar koma við sögu síðmiðaldra fólk sem á barnabörn, kona um sextugt og karlmaður um sjötugt.

Ákært var fyrir fíkniefnasölu, fíkniefnavörslu, skipulagða brotastarfsemi og peningaþvætti. Mál þetta fékk heitið Sólheimajökulsmálið en helmingur af sakborningahópnum myndaði með sér spjallhóp á samskiptaforritinu Signal undir heitinu Sólheimajökull.

Hópurinn er talinn hafa starfað í nokkur ár en lögreglan komst á snoðir um starfsemina er kona, sem grunuð var um sölu á amfetamíni, var handtekin og látin undirgangast húsleit. Komu þá í ljós umfangsmikil samskipti hennar við aðra aðila í hópnum.

Í kjölfar skoðunar á samskiptagögnum var ráðist í húsleitir í haust og fann lögregla nokkur kíló af kókaíni, amfetamíni og öðrum fíkniefnum í september og október 2023.

Stór hluti af málinu varðar síðan tilraun fjögurra aðila til að smygla tæplega  2,2 kílóum af kókaíni sem falin voru í tveimur pottum í skemmtiferðaskipinu AIDAsol sem lagðist að bryggju á Íslandi þann 11. apríl síðastliðinn. Sá sem talinn er höfuðpaur hópsins skipulagði innflutning fíkniefnanna hingað til lands.  „Ákærðu allir sammæltust um þátttöku í starfseminni með því að skiptast á skilaboðum í gegnum samskiptaforritið Signal og í símtölum sem innihéldu fyrirmæli, leiðbeiningar og samtöl um hvernig koma ætti fíknefnunum úr skipinu, hverjum ætti að afhenda þau, hvar ætti að sækja þau og hvernig og hvar fjarlægja skyldi efnin úr pottunum,“ sagði í ákærunni.

Jón Ingi Sveinsson við þingfestingu málsins. Mynd: DV/KSJ

Höfuðpaurinn í málinu var Jón Ingi Sveinsson, maður á fimmtugsaldri. Hann var óskoraður foringi hópsins og rak hann eins og fyrirtæki, réð fólk til starfa og rak það, útdeildi sumarleyfum, ákvarðaði verkaskiptingu, greiddi laun o.sfrv.

Jón Ingi var dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. desember. Tveir sakborningar hlutu fimm ára fangelsisdóm í málinu, tveir fjögurra ára fangelsi og fjögur fengu þriggja ára fangelsi. Aðrir sakborningar fengu vægari dóma og jafnframt skilorðsbundna.

DV komst yfir lögregluskýrslur í málinu síðastliðið sumar og skrifaði nokkrar fréttir upp úr þeim, m.a. annars um flutninga á reiðufé sem fóru fram í gegnum bifreiðaverkstæði í Kópavogi. Einnig var grein frá því að lítið væri um ofbeldi á meðal meðlima hópsins og margir lifðu mjög venjulegu lífi, væru í venjulegum störfum en hefðu fíkniefnabrotin að hlutastarfi.

Sjá einnig: Þetta eru höfuðpaurarnir í stóra fíkniefnamálinu – Peningabúntin voru afhent og sótt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Þann 25. júlí var kveðinn upp dómur yfir Dagbjörtu Rúnarsdóttur fyrir að hafa orðið sambýlismanni sínum í Bátavogi að bana, þann 23. september árið 2023.

Maðurinn lést eftir misþyrmingar Dagbjartar, sem talið er að hafi staðið yfir í um sólarhring.

Lögregla fann á vettvangi hræ af dauðum smáhundi í frystihólfi. Um var að ræða hund Dagbjartar og í skýrslutöku fyrir dómi taldi hún að hundurinn, sem var 14 ára, hefði orðið sjálfdauður. En á hljóðupptökum úr síma hennar sem spilaðar voru í dómsal kom í ljós að hún kenndi hinum látna um dauða hundsins og uppnefndi hann dýraníðing.

Á upptökunum heyrist hinn látni meðal annars segja: „Viltu ekki bara ná í hníf og stinga mig beint í hjartað, þú vilt bara pína mig, geturðu ekki bara drepið mig beint.“ – Einnig segir hann Dagbjörtu hafa gert sig heyrnarlausan en á líkinu voru áverkar á eyra.

Dagbjört var sýknuð af ákæru um manndráp en sakfelld fyrir líkamsárásir og hlaut tíu ára fangelsi.

Gabríel ræddi við DV og réðst á fangaverði

Gabríel Douane Boama vakti þjóðarathygli árið 2022 er hann strauk úr haldi lögreglu í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem mál hans var til meðferðar. Var hann handtekinn nokkrum dögum síðar. Gabríel á langan brotaferil að baki þrátt fyrir ungan aldur og var meðal annars viðriðinn blóðug átök í Borgarholtsskóla í janúar árið 2021.

Gabríel situr nú á Litla-Hrauni fyrir ýmis brot. Hann veitti DV viðtal seint í júlí þar sem hann kvartaði undan yfirgangsemi fangavarða á Litla-Hrauni við sig. Hann taldi framkomu fangavarða við sig sérstaklega erfiða þar sem hann glími við reiðivandamál. Er viðtalið var tekið hafði Gabríel náð nokkurra mánaða fráhaldi frá fíkniefnum og taldi sig hafa sýnt fyrirmyndarhegðun í fangelsinu. Hann sagði:

„Ég er búinn að vera edrú núna í fimm mánuði og hef hagað mér mjög vel miðað við síðustu afplánun, ég var alltaf í agabrotum, alltaf að gera eittthvað af mér, og fangaverðirnir og varðstjórarnir segja meira að segja sjálfir að ég hafi hagað mér mjög vel, en þeir eru að koma fram við mig alveg eins og ég hagaði mér síðast. Þess vegna segi ég að þetta er ekki að hjálpa mér að bæta mig sem manneskju til að komast út í samfélagið, þegar það er ekki komið fram við mig eins og manneskju heldur alltaf reynt að niðurlægja mig. Ég er með reiðivandamál og ef það er alltaf verið að espa mig upp þá fæ ég ekki sjensinn til að bæta mig. Ég er að reyna að komast út í lífið og standa mig.“

Um viku eftir viðtalið sauð upp úr í samskiptum Gabríels við fangaverði og urðu átök sem leiddu til þess að flytja þurfti þrjá fangaverði á sjúkrahús.

Hrannar Fossberg Viðarsson, samfangi Gabríels, sagðist í samtali við DV hafa orðið vitni að átökunum. Hann segir að Gabríel og vinur hans hafi verið með einnhver fíflalæti sem leitt hafi til þess að fangaverðir hafi meinað þeim að taka þátt í útivist fanga. Hrannar segir fangaverði hafa sýnt ósveigjanleika og segir að hann hefði getað róað Gabríel niður á tveimur mínútum hefði hann fengið tækifæri til þess.

„Það fossblæddi úr andlitinu á einum fangaverðinum.“ – Hann segir að eftir hávaðarifrildi við Gabríel hafi einn fangavörðurinn tekið upp varnarúða. Gabríel hafi þá sett armbandsúr sitt á hnúana og notað sem hnúajárn við að berja á fangavörðunum. „Hann er mjög sterkur, sérstaklegra miðað við hvað hann er grannur,“ segir Hrannar, en Gabríel hefur æft lyftingar og körfubolta af kappi.

Sjá einnig: Blóðug átök Gabríels við fangaverði – Sagður hafa notað úrið sitt sem hnúajárn

Í lok sumars og byrjun hausts komu upp þrjú afar hörmuleg manndrápsmál sem rifjuð verða upp í annál þann 28. desember næstkomandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“