Björgunarfélag Akraness var kallað út í dag vegna báts í Akraneshöfn sem var við það að slitna frá bryggju vegna hvassviðris. Björgunarbáturinn Jón Gunnlaugsson og lóðsbáturinn Þjótur voru mannaðir og náðu að koma bátnum aftur að bryggju þar sem landfestar voru tryggðar.
Frá þessu greinir Landsbjörg í tilkynningu þar sem tekið er fram að veðrið hafi í dag haldið áfram að gera skráveifu.
Eins var Björgunarfélag Vestmannaeyja kallað út vegna flutningsbíls sem stóð skammt frá Eldfelli. Vindurinn var við það að rjúfa þekju tengivagnsins sem þá hefði getað splundrast vegna vindsins. Ekki kom til þess og tengivagninum var bjargað.