Efling hefur nú nafngreint nokkra veitingastaði sem eiga aðild að Samtökum fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) en samkvæmt tilkynningu Eflingar standa þessi fyrirtæki jafnframt að baki kjarasamningi sem gerður var við umdeilda stéttarfélagið Virðingu. Efling hafði áður lofað því að nafngreina fyrirtækin sem ætluðu að hlunnfara starfsmenn með þessum umdeila kjarasamning.
„Raunveruleg stéttarfélög eru stofnuð af launafólki án afskipta atvinnurekenda. Hið svokallaða stéttarfélag “Virðing” er gervistéttarfélag, eins og tengsl þess við atvinnurekendafélagið SVEIT sýna með ótvíræðum hætti. SVEIT og Virðing hafa undirritað gervikjarasamning þar sem launakjör og réttindi starfsfólks eru skert verulega“
Efling segist undanfarið hafa yfirfarið tengsl stjórnarmanna í SVEIT og stjórnarmanna í Virðingu við tiltekin fyrirtæki í veitingarekstri. Við vinnuna var stuðst við félagatal SVEIT, opinberar skráningar sem finna má hjá Skattinum og upplýsingar af vefsíðum þessara aðila. Efling hefur eins átt í samskiptum við forsvarsmenn einstakra aðildarfyrirtækja SVEIT og við félagsfólk sem starfar hjá þeim. Telur Efling sig núna hafa nokkuð skýra mynd af því hvaða fyrirtæki ætla sér að nýta kjarasamning Virðingar „til að hlunnfara starfsfólk sitt“.
Fyrirtækin eru:
Rok (Taste ehf.) – Aðildarfyrirtæki SVEIT og hefur ekki svarað erindum Eflingar um afstöðu til kjarasamningsins við Virðingu. Hrefna Björk Sverrisdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri ROK. Hrefna er jafnframt stofnandi, stjórnarmaður og fyrrum formaður SVEIT. Dóttir Hrefnu, Ronja Björk Bjarnadóttir, er einn af stofnendum Virðingar og situr þar í varastjórn.
Subway (Stjarnan ehf.) – Aðildarfyrirtæki SVEIT og hefur ekki svarað erindum Eflingar um afstöðu til kjarasamningsins við Virðingu. Skúli Gunnar Sigfússon er eigandi og framkvæmdastjóri Stjörnunnar hf. og situr í stjórn SVEIT. Efling segist hafa undir höndum gögn sem sýna að starfsfólk Subway hafi verið látið greiða félagsgjöld til Virðingar.
Public House Gastropub (Gastropub ehf.) – Aðildarfyrirtæki SVEIT og hefur ekki svarað erindum Eflingar um afstöðu til kjarasamningsins við Virðingu. Eyþór Mar Halldórsson er eigandi og jafnframt stjórnarmaður í SVEIT.
Hard Rock Cafe (HRC Ísland ehf.) – Aðildarfyrirtæki SVEIT og hefur ekki svarað erindum Eflingar um afstöðu til kjarasamningsins við Virðingu.
Finnsson Bistro (K3 ehf.) – Aðildarfyrirtæki SVEIT og hefur ekki svarað erindum Eflingar um afstöðu til kjarasamningsins við Virðingu. Efling segist hafa staðfestar heimildir fyrir því að Óskar Finnsson, matreiðslumaður á Finnsson og stjórnarformaður K3 hafi lýst því yfir að hann muni skrá starfsfólk sitt í Virðingu og gefa þeim engan annan kost.
Efling segir að fjöldi fyrirtækja hafi upplýst um úrsögn sína úr SVEIT eða veitt staðfestingu um að starfsfólk vinni ekki eftir kjarasamningi Virðingar og SVEIT. Að sögn Eflingar er þar um að ræða mikinn meirihluta fyrirtækja sem var að finna í félagatali SVEIT.
Telur Efling rétt að upplýsa neytendur, ferðamenn, félagsmenn og almenning um nöfn þeirra fyrirtækja sem virðast standa að baki kjarasamningnum umdeilda.
„Þessi fyrirtæki hafa ekki svarað erindum frá Eflingu og í sumum tilvikum eru til staðar nánari tengsl við SVEIT og/eða Virðingu. Í sumum tilvikum hafa Eflingu borist upplýsingar um að fyrirtækin hafi í reynd gengið svo langt að skráð starfsfólk í Virðingu. Listinn ásamt skýringum fylgir á næstu blaðsíðu.“