Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands í morgunsárið er farið yfir stöðuna í veðrinu.
„Nú þegar þetta er skrifað er 960 mb lægð stödd 600 km vestur af Reykjanesi. Í nótt sendi þessi lægð megin skilakerfi sitt til norðausturs yfir landið. Í skilunum var suðaustan stormur með slyddu eða snjókomu, en fór yfir í rigningu við suður- og vesturströndina þegar hlýnaði. Handan skilanna er hægari suðvestanátt með skúrum og hita 2 til 7 stig. Nú kl. 6 hefur vindur snúist til suðvestanáttar í Keflavík og mun snúast annars staðar eftir því sem líður á morguninn og skilin færast til norðausturs,“ segir veðurfræðingur.
„Áðurnefnd lægð færist til norðausturs og nálgast þar með landið. Síðdegis bætir því aftur í vindinn og má búast við allhvössum vindi sunnantil, en hvassviðri eða stormi á Norðurlandi og Vestfjörðum. Það kólnar smám saman og útlit er fyrir slydduél eða él á vesturhelmingi landsins.“
Að sögn veðurfræðings eru horfur á sunnan kalda eða strekkingi í fyrramálið og verður slydda eða snjókoma viðloðandi, en þurrt veður á norðaustanverðu landinu.
„Síðdegis á morgun gera spár ráð fyrir að önnur lægð dýpki fyrir vestan land. Þá herðir á vindinum og með fylgja él. Á aðfangadagskvöld er útlit fyrir suðvestan storm með dimmum éljum á sunnan- og vestanverðu landinu. Á Norðaustur- og Austurlandi verður heldur hægari vindur og úrkomulaust. Frystir á öllu landinu. Einnig er vert að nefna að horfur eru á að óveðrið á aðfangadagskvöld verði langvarandi og haldist áfram með litlum breytingum á jólanótt og á jóladag,“ segir veðurfræðingur sem lýkur pistli sínum á þessum orðum:
„Af ofansögðu er ljóst að það er líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið. Í hvössum vindi og éljum eru akstursskilyrði erfið og færð getur auðveldlega spillst, sérílagi á tímum þegar snjómokstur er af skornum skammti.“
Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:
Á þriðjudag (aðfangadagur jóla):
Sunnan 8-15 m/s og slydda eða snjókoma, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. Hvessir síðdegis, suðvestan 15-23 um kvöldið, hvassast suðvestantil á landinu. Víða éljagangur, en áfram þurrt norðaustanlands. Kólnandi veður.
Á miðvikudag (jóladagur):
Suðvestan 15-23 m/s með dimmum éljum, en bjartviðri á Austurlandi. Frost 1 til 6 stig.
Á fimmtudag (annar í jólum):
Suðvestan og sunnan 10-18 og snjókoma eða slydda með köflum, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti um og undir frostmarki.
Á föstudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum, en úrkomulítið austanlands. Frost 1 til 6 stig.
Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir norðlæga átt. Snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunnantil. Frost 3 til 12 stig.