Fjallað var um málið í hlaðvarpsþættinum vinsæla Mr. Ballen en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að líkið var af hinum 45 ára gamla Mark Foster. Ýmislegt undarlegt blasti við lögreglu á vettvangi; í fyrsta lagi var Foster klæddur í alhvítan klæðnað frá toppi til táar og í öðru lagi fannst dularfullt bréf sem búið var að troða ofan í sokkinn hans. Í bréfinu stóð:
„Jack Frazier isn’t here but it’s Jimmy Bailey? Or look alike? Geez It’s 3 toughs. Hope I’m OK.“
Á hvítri skyrtu Fosters var blóðblettur og leiddi krufning í ljós að hann hafði verið skotinn einu skoti í hjartað. Ýmislegt vakti athygli lögreglu í málinu. Þannig kom í ljós að Foster var búsettur í Minneapolis, hátt í 400 kílómetra frá Douglas-sýslu þar sem lík hans fannst.
Steven Long, rannsóknarlögreglumaður í Douglas-sýslu, var fenginn til að rannsaka málið og með því fyrsta sem hann gerði var að reyna að komast að því hverjir Jack Frazier og Jimmy Bailey, sem vísað var til í fyrrnefndu bréfi, væru og hvernig þeir gætu mögulega tengst Foster. Long komst fljótt að því að báðir væru búsettir í Minneapolis en sá ekki í fljótu bragði að tengsl væru á milli mannanna þriggja. Það átti þó eftir að breytast.
Long ákvað að ferðast til Minneapolis og hafði hann samband við lögregluyfirvöld þar um hugsanlega samvinnu, þar sem Foster var jú búsettur í borginni eins og hinir tveir sem minnst var á í bréfinu. Nokkrum tímum síðar var hann kominn á lögreglustöðina í Minneapolis og þar beið hans rannsóknarlögreglumaður sem hann hafði rætt við í síma áður en hann lagði af stað. Sá hafði fengið eiginkonu Fosters, Söruh Foster, til að koma á stöðina og beið hún þeirra í yfirheyrsluherbergi á lögreglustöðinni.
Þegar Long gekk inn í herbergið beið hans kona sem var augljóslega 15 til 20 árum yngri en Foster og greinilega ólétt. Hún var búin að fá fregnir af andláti eiginmanns síns og virtist mjög viljug til að hjálpa lögreglu að varpa ljósi á málið. Segja má að hún hafi misst andlitið þegar Long las fyrir hana bréfið sem fannst á líki eiginmanns hennar – og þá einkum nöfnin á bréfinu. Í ljós kom að Jack Frazier og Jimmy Bailey áttu það sameiginlegt að hafa verið kærastar hennar áður fyrr.
Gat verið að þeir hefðu í sameiningu reynt að koma Foster fyrir kattarnef? Lögregla útilokaði ekkert.
Fljótlega kom þó í ljós að hvorki Jack Frazier né Jimmy Bailey hefðu haft nokkuð með dauða Fosters að gera. Lögregla reyndi að snúa við öllum steinum í málinu og dag einn fóru rannsóknarlögreglumennirnir á heimili Söruh og Fosters til að spyrja hana frekari spurninga. Þeir ráku upp stór augu þegar inn var komið því á heimilinu, á glámbekk, var heill haugur af kynlífsleikföngum og grófu klámefni. Sarah veitti lögreglu heimild til að framkvæma leit á heimilinu og þegar rannsóknarlögreglumennirnir fóru upp á háaloft mætti þeim óvenjuleg sjón. Þar voru enn fleiri kynlífsleikföng en einnig einhvers konar altari sem ofan á voru nafnspjöld lögreglumannanna tveggja sem voru mættir á staðinn.
Síðar kom í ljós að Foster hafði leitt einhvers konar vúdú-sértrúarsöfnuð þar sem skringilegir helgisiðir af kynferðislegum toga voru stundaðir. Fóru fundirnir fram á þessu sama háalofti. Lögregla taldi að mögulega hefði einhver meðlimur safnaðarins komið nafnspjöldum lögreglumannanna fyrir til að afvegaleiða lögreglu við rannsókn málsins. Hvernig það kom til að nafnspjöldin voru á þessu altari er enn þann dag í dag ráðgáta.
Foster var sagður vel stæður fjárhagslega en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að hann var skuldugur upp fyrir haus. Eiginkona hans, Sarah, vildi í fyrstu gera allt til að aðstoða lögreglu við rannsókn málsins en hún byrjaði að draga sig í hlé þegar lögreglumenn fundu altarið á háaloftinu. Án liðsinnis Söruh átti lögregla erfitt með að hnýta alla þá lausu enda sem enn voru á málinu.
Það var ekki fyrr en 18 mánuðum síðar að hjólin fóru að snúast fyrir alvöru en þá setti fyrrverandi meðlimur sértrúarsafnaðarins, Brent Thompson, sig í samband við lögreglu þar sem hann játaði aðild að dauða hans. Lýsti hann því að hann og annar meðlimur safnaðarins, Gregory Friesner, hefðu ekið með Foster til Wisconsin að beiðni Fosters. Bað hann þá náðarsamlegast um að skjóta sig í bringuna sem þeir og gerðu. Áður hafði hann sett fyrrnefndan miða í sokk sinn til að reyna að flækja fyrrverandi elskhuga eiginkonu sinnar í málið. En af hverju í ósköpunum bað Foster þá Brent og Gregory um að drepa sig?
Foster mun hafa trúað því að það væri sannarlega líf eftir dauðann. Þegar hann væri dáinn myndi sál hans fara í líkama þeirra Brents og Gregory og hann halda áfram að lifa í gegnum þá. Í myndbandi sem tekið var upp skömmu fyrir dauða hans, sagði hann meðal annars: „Við fögnum lífinu eins og við fögnum dauðanum. Dauðinn er ekkert til að óttast.”
Thompson var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir aðild sína að málinu og Friesner, sem var sá sem tók í gikkinn, var dæmdur í tíu ára fangelsi. Lögreglu grunaði lengi að Sarah hefði haft einhverja vitneskju um það sem gerðist en hún var þó ekki sótt til saka í málinu. Jack Frazier, annar þeirra tveggja sem Foster reyndi að flækja í morðið á sjálfum sér, var brugðið þegar hann heyrði af hinni furðulegu atburðarás. „Þeir reyndu að flækja mig í morðmál. Þetta er eitthvað sem maður les um í bók. En ruglað fólk gerir ruglaða hluti.”