„Norður-Kóreumennirnir hlaupa yfir akrana og þeir eru svo margir. Þeir skilja ekki hvað er að gerast. Við vorum mjög hissa og við höfðum aldrei séð neitt þessu líkt – 40 -50 menn sem hlaupa yfir akur. Þeir eru fullkomið skotmark. Rússarnir hafa aldrei hlaupið á þennan hátt.“
Þetta sagði steinhissa úkraínskur herforingi í samtali við The Washington Post. Maðurinn nýtur nafnleyndar af öryggissjónarmiðum. En hann er ekki sá eini sem hefur tjáð sig um undarlega hegðun Norður-Kóreumannanna, hegðun sem verður þeim að bana.
Suðurkóreska leyniþjónustan NIS segir að ástæðan fyrir miklu mannfalli Norður-Kóreumanna sé að þeir hafi ekki skilning á hvernig þeir eiga að takast á við drónaárásir og auk þessi þekki þeir ekki vígvöllinn þar sem þeir séu notaðir sem fallbyssufóður.
„Ég veit ekki hvort þeir vita hvað er að gerast eða hvort Rússarnir sendi þá viljandi af stað,“ sagði úkraínski herforinginn einnig og bætti við að Norður-Kóreumennirnir noti verstu hugsanlegu taktíkina þegar þeir takast á við dróna. Í staðinn fyrir að hlaupa eins og fjandinn sé á hælum þeirra, þá stoppi þeir og reyni að skjóta drónana niður. Það sé ávísun á dauða.
NIS segir að innan rússneska hersins sé að sögn búið að kvarta undan Kóreumönnunum vegna þess að þeir þekki lítið til dróna og eru þeir sagðir vera meiri byrði en gagnlegir.
Þá segir leyniþjónustan að orðrómar séu á kreiki um að fleiri norðurkóreskir hermenn verði sendir til Rússlands.
Segir NIS að Rússar muni væntanlega launa Norður-Kóreu greiðann á einhvern hátt, til dæmis með að hjálpa til við að nútímavæða vopnabúr þeirra.