Veðurstofa Íslands boðar leiðindaveður yfir jólahátíðina. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspá og færð næstu daga. Spáð er hvassviðri eða stormi norðan- og austanlands að kvöldi Þorláksmessu og fram á nótt. Leiðindaveður verður sömuleiðis á aðfangadag og á jóladag. Landsmenn ættu svo ekki að búast við blíðu á annan í jólum.
Veðurstofan tekur fram að gular viðvaranir taka gildi í kvöld á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Vindhviður geta staðfundið farið yfir 35 metra á sekúndu. Gular viðvaranir eru eins vegna suðvestan storms og hríðar á kvöldi aðfangadags og á jóladag á vesturhelmingi landsins.
Tekið er fram að þó að viðvaranir séu gular sem stendur geti þær hækkað og því þurfi að fylgjast vel með veðurspá og færð næstu daga. Í hvössum vindi og éljum eru aksturskilyrði erfið og færð getur auðveldlega spillst, sér í lagi á tímum þegar snjómokstur er af skornum skammti. Varað er við ferðalögum.
Á vef Veðurstofunnar segir:
Þorláksmessukvöld: Hvessir síðdegis, suðvestan 13-23 m/s undir kvöld, hvassast á Norðurlandi og Vestfjörðum þar sem vindhviður geta staðbundið farið yfir 35 m/s. Slydduél eða él á vesturhelmingi landsins og kólnandi veður.
Aðfangadagur: Sunnan 8-15 m/s og él, en þurrt að mestu á norðaustanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. Hvessir aftur síðdegis. Suðvestan hríð á vestanverðu landinu um kvöldið (hvassviðri, stormur og jafnvel rok) með dimmum éljum, hvassast í éljahryðjum. Í éljunum má búast við lélegu skyggni og aðstæður til ferðalaga verða erfiðar.
Jóladagur: Suðvestan 15-25 m/s með dimmum éljum, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi. Frost 0 til 6 stig. Hægt skánandi veður að kvöldi jóladags.
Annar í jólum: Suðvestan og sunnan 10-18 m/s og snjókoma eða slydda með köflum, en þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Hiti um og undir frostmarki.“