Árið 2024 hefur verið viðburðaríkt með tilliti til sakamála. Ískyggilegt atvik átti sér stað aðfaranótt 20. janúar er maður veittist að konu og karli sem voru á göngu eftir Hofsvallagötu og sló til mannsins tvisvar með bitvopn í hendi svo brotaþolinn hlaut af tvær stungur. Hann var fluttur á slysadeild og var um tíma í lífshættu en náði sér.
Árásarmaðurinn sat í gæsluvarðhaldi allt fram að réttarhöldum í september og nafni hans var haldið leyndu fram að þeim. Nokkuð kom á óvart að ákærði reyndist ekki vera utangarðsmaður heldur 48 ára gamall fjölskyldufaðir og byggingaverktaki, Örn Geirdal Steinólfsson. Hann hefur þó brotaferil að baki.
Örn neitaði sök í málinu er hann bara vitni fyrir dómi. Atvikið átti sér stað eftir ósköp venjulegt kvöld sem hann hafði varið með konu og börnum. Hann virðist hins vegar af ókunnum ástæðum hafa farið á fætur um nóttina og farið í vinnufötin sem hann hafði klæðst daginn áður. Hann man eftir sér á ákveðnum bar og að fengið sér eitt glas þar og síðan gengið heim aftur.
Hann sagðist muna eftir því að það hafi verið ráðist á hann á leiðinni og yfir honum stóð hár, dökkleitur maður, og ljóshærð kona með gullspangargleraugu. „Ég man að ég var að flýja,“ sagði hann. „Það var einhver öskrandi þarna, þessi stelpa.“ – Örn sagðist ekki muna hvar þetta var, einhvers staðar á miðsvæðis eða í Vesturbænum.
Hann segist muna að hann hafi verið að leita að einhverju og það hafi verið sími sem hann hafði glatað. Síðan man hann ekki eftir sér þar til lögreglan kom. „Þetta var skelfileg upplifun, ég hélt þeir væru komnir til að hjálpa mér.“
Örn segist telja að hann hafi fengið áfall við handtökuna og man allt mjög óljóst sem gerðist í kjölfar hennar. Hann segist strax hafa sagt lögreglu að það hafi verið ráðist á hann og hann hafi verið að flýja. „Mér fannst ég vera staddur í einhverri martröð með þetta allt saman.“
Dómara þótti framburður Arnar fyrir dómi ekku vera trúverðugur en framburður brotaþola í málinu var það aftur á móti. Þann 17. október var Örn sakfelldur fyrir árásina og dæmdur í sex ára fangelsi.
Miðvikudagsmorguninn 31. janúar fékk DV upplýsingar um stóra lögregluaðgerð fyrir utan íbúðahús við Nýbýlaveg í Kópavogi. Samkvæmt upplýsingum frá heimildarmanni voru sex lögreglubílar á vettvangi, fjórir ómerktir og tveir merktir, og vettvangur var innsiglaður með gulum borða. Lögregla varðist frétta af málinu í fyrstu en ráða mátti af símtölum DV við lögreglumenn að þeim var mjög brugðið.
Síðar sama dag sendi lögregla frá sér tilkynningu þess efnis að hún væri með til rannsóknar andlát sex ára barns. Síðar upplýstist að móðir barnsins, kona um fimmtugt, væri í haldi vegna málsins.
Fólkið er frá Írak en foreldrar tveggja drengja, sex og 12 ára, höfðu fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Faðirinn var hins vegar fluttur út af heimilinu og býr annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Það upplýstist við útgáfu ákæru í málinu að móðirin var talin hafa kæft son sinn til bana og reynt að bana bróður hans sem komst undan tökum hennar. Móðirin var sakfelld með dómi Héraðsdóms Reykjaness, í byrjun janúar. Hún hlaut mjög þungan dóm, eða 18 ára fangelsi.
Móðirin bar við ósakhæfi vegna andlegs ástands á verknaðarstundu, en matsmenn mátu hana sakhæfa. Svo virðist sem dómari hafi ekki tekið tillit til geðrænna vandamála hennar er hann kvað upp dóminn.
Stórþjófnaður átti sér stað í Hamraborg í Kópavogi þann 25. mars er menn brutust inn í verðmætaflutningabíl frá Öryggismiðstöðinnni á meðan starfsmenn voru að sækja fjármuni í spilakassa á veitingastaðnum Catalinu. Þjófarnir náðu peningatöskum úr bílnum og var innihaldið hátt í 30 milljónir króna í reiðufé.
Stuttu eftir atvikið lýsti lögregla eftir tveimur mönnum á gráum Toyota Yaris. Daginn eftir fundust töskurnar sem teknar höfðu verið úr verðmætaflutningabílnum á víðavangi í Mosfellsbæ. Í töskunum voru litasprengjur sem eru til þess gerðar að eyðileggja peningana þegar töskurnar eru onaðar.
Maður á fertugsaldri var handtekinn í maí í þágu rannsóknar málsins og sat tíu daga í gæsluvarðhaldi. Ekki hefur verið gefin út ákæra á hendur honum og málið er enn til rannsóknar.
Pétur Jökull Jónasson öðlaðlist landsfrægð er alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir honum að beiðni íslenskra yfirvalda. Málið kom upp í febrúar. Lögregla vildi hafa tal af Pétri vegna tengsla hans við stórt kókaínmál sem leitt hafði verið til lykta í dómsal árið áður en þar voru fjórir menn sakfelldir og fengu þunga fangelsisdóma fyrir tilraun til að flytja hingað til lands 100 kg af kókaíni, sem falið var í trjádrumbum. Efnin voru flutt frá Brasilíu til Rotterdam í Hollandi, en ferðinni var heitið til Íslands. Lögregla í Rotterdam skipti hins vegar fíkniefnunum út fyrir gerviefni.
Pétur Jökull var talinn vera fimmti maðurinn í þessari aðgerð og var það meðal annars byggt á símahlerunum og skoðunum á textasamskiptum sakborninganna á samskiptaforritum. Fyrir dómi neitaði Pétur Jökull því að vera fimmti maðurinn í þessu fíkniefnasmygli þó að staðsetningar hans í veröldinni pössuðu fullkomlega við framgang aðgerðarinnar hverju sinni.
Saksóknari spurði Pétur Jökul út í ferðir hans árið 2022 og kom í ljós að hann hafði verið í Brasilíu, Spáni, Tælandi og Íslandi. Dvalartími hans í Brasilíu passar við dagsetningu á kókaínsmyglinu með gámi þaðan til Rotterdam. Pétur var spurður hvort hann hefði mögulega verið í Rotterdam í Hollandi á tilteknum tíma og sagði hann það geta staðist, vegna flugs. Skipið með gámnum lagðist að höfn í Rotterdam og þar skiptu lögreglumenn fíkniefnunum út fyrir gerviefni.
Pétur var spurður hvað hann hefði verið að gera í Brasilíu. Sagðist hann hafa verið að skemmta sér og hitta vini. Hann hefði haft áform um að kynna sér brasilíska bardagaíþrótt sem hann hafði verið að æfa en Covid-takmarkanir hefðu komið í veg fyrir það.
Pétur var spurður út í ástæður fyrir heimshornaflakki sínu á árinu 2022. Hann sagði: „Ég átti erfitt með að fóta mig á Íslandi og var að gera upp við mig hvort ég ætti að vera á Spáni og síðan var ég að spá í hvort ég ætti að vera í Brasillíu. Síðan varð Tæland áfangastaðurinn.“
Pétur Jökull var sakfelldur í lok ágúst og dæmdur í átta mánaða fangelsi.
Þann 11. apríl varaði skólastjóri Dalskóla í Úlfarsdal foreldra og og forráðamenn barna í skólanum við dæmdum kynferðisbrotamanni sem hafði gert sér dælt við 13 ára drengi þegar þeir sóttu skólasund í Dalslaug.
Maðurinn heitir Jón Sverrir Bragason. Hann var árið 2009 dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dreng með ódæmigerða einhverfu. Hann hlaut einnig yfir tveggja ára fangelsi fyrir að hafa í fórum sínum gífurlega mikið magn af barnaníðsefni. Var hann gripinn með efnið í Leifsstöð árið 2014.
Jón Sverrir, sem er 69 ára, hafði er þarna var komið sögu, verið að gera sér gert sér dælt við 13 ára drengi í Úlfarsárdal í um þriggja mánaða skeið. Hafði hann oft og tíðum spjallað við þá fyrir og eftir skólasund í Dalslaug og mætt á fótboltaæfingar þeirra hjá Fram. Virtist hann hafa á hreinu tímasetningar æfinga hjá drengjunum og skólasundtíma þeirra. DV ræddi við móður þess drengs sem Jón Sverrir hafði haft hvað mest samskipti við. Henni og syni hennar var eðlilega mjög brugðið eru þau voru upplýst um fortíð mannsins:
„Ég vissi ekkert um þetta þar til bréfið kom frá skólanum í gær. Sonur minn hafði ekkert nefnt þennan nýja vin sinn í sundi. En þessi maður hefur verið að tala við þá a.m.k. síðan í janúar. Hann hefur áunnið sér traust þeirra og hefur mest verið að tala við son minn og einn annan dreng. Skólinn komst að þessu fyrir um tveimur vikum og fór þá í rannsóknarvinnu, þau skoða upptökur úr sundlauginni og þar sést að hann mætir í sund þegar þeir eru að mæta, hann fer upp úr á sama tíma og þeir og er að tala við þá og eiga samskipti við þá, þetta sýna gögn úr myndeftirlitsvélum. Þau komast að því að þetta er dæmdur barnaníðingur. Hann fékk viðvörun í síðustu viku og var þá sagt að ef hann komi aftur þá muni mæta honum lögregla og skólayfirvöld. Hann lét sér ekki segjast og það var tekið á móti honum í gær. Í kjölfarið var farið með börnin inn í skólastofu og þetta útskýrt fyrir þeim. Maðurinn var nafngreindur og börnin hvött til að gúggla og kynna sér málið.“
Þann 22. apríl bárust fréttir af því að lögregla rannsakaði andlát konu í fjölbýlishúsi á Akureyri. Grunur lék á að andlát konunnar hefði borið að með saknænum hætti.
Eiginmaður konunnar, sem nýlega var nafngreindur, tilkynnti um lát konunnar síðla nætur og bar lögreglu að um kl. 4:30 um nóttina. Konan var þá látin. Maðurinn heitir Þorsteinn Hermann Þorbjörnsson og er 63 ára gamall. Hann var nýlega sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða konunnar. Hlaut hann 12 ára fangelsisdóm.
Dómurinn hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir það að Þorsteinn var ekki sakfelldur fyrir manndráp þar sem ekki þótti sannað að ásetningur hans hafi staðið til að bana konunni á verknaðarstundu. Vitnleiðslur leiddu í ljós að hann hafið beitt konuna ofbeldi áratugum saman.