Eins og áður eru klassískir ferðamannastaðir vinsælli en aðrir og í því samhengi má til dæmis nefna Spán, Frakkland, Ítalíu og Grikkland sem flestir kjósa að velja. Þannig stefnir í metfjölda ferðamanna á Spáni og að þeir verði yfir 90 milljónir á árinu.
Daily Express ræddi við Simon Calder, blaðamann sem sérhæfir sig í fréttum af ferðalögum, og spurði hann út í ferðamannaárið 2025. Hann segir að allt bendi til þess að áfram verði vöxtur í utanlandsferðum í Evrópu.
Bætir hann við að hinir klassísku áfangastaðir sem nefndir eru hér að ofan kosti sitt og ef fólk vilji fara ódýrari leiðir – en ekki endilega verri – sé vert að skoða löndin við Balkanskaga í Suðuausturhluta Evrópu. Þessir staðir séu að verða sífellt vinsælli og mælir hann með því að fólk skoði þá áður en bólan stækkar enn frekar.
„Ef þú vilt ódýran og góðan áfangastað þá mæli ég með Balkanskaganum – Búlgaría býður til dæmis upp á mjög hagstætt verð fyrir pakkaferðir,“ segir hann.
Sjá einnig: Fluttu til Búlgaríu og ætla aldrei að flytja þaðan – Þetta eru helstu ástæðurnar
Búlgaría á meðal annars landamæri að Grikklandi og Tyrklandi og er mikil veðursæld þar á sumrin. Margar fallegar strendur eru í Búlgaríu og þá býður landið upp á ríka sögu fyrir þá sem vilja drekka í sig menningu. Í Búlgaríu eru einnig vinsæl skíðasvæði fyrir vetrarferðamenn.
Árið 2023 komu 8,6 milljónir ferðamanna til Búlgaríu sem var 13 prósenta aukning frá árinu á undan. Allt stefnir í að árið í ár verði metár hvað varðar fjölda ferðamanna í Búlgaríu. Til samanburðar komu 33 milljónir ferðamanna til Grikklands og 49 milljónir til Tyrklands. Búlgaría virðist því eiga talsvert inni.
Calder nefnir einnig Albaníu sem ferðamannastað sem mun aukast í vinsældum á næstu misserum. Þar er verðlag einkar hagstætt fyrir ferðamenn og frábærar strendur fyrir þá sem vilja vera í sólinni. Þar að auki er Albanía af mörgum talið eitt fallegasta land Evrópu og segir Calder það í raun skrýtið að ekki fleiri en tíu milljónir ferðamanna hafi heimsótt það árið 2023.
Bendir Calder á að hótelgisting í Albaníu, á flottu hóteli í fullu fæði, kosti um 50 evrur nóttin. Sambærilegt hótel á grísku eyjunum kosti til dæmis um tvöfalt meira.